Veðrið leikur við landann víðast hvar í dag. Í mikilli og sterkri sól er mikilvægt að nota sólarvörn til að verja húðina. Hins vegar er ofboðslega hvimleitt að fá sólarvörn í föt og geta þeir blettir orðið ansi lífseigir.

Á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna er að finna nokkur góð ráð til að losna við sólarvarnarbletti úr fötum. Þar er tekið fram að ekkert eitt ráð virki á allar flíkur og bletti því það fer allt eftir hvaða efni eru í flíkinni og sólarvörninni.

„Byrjaðu fyrst á því að leggja flíkina í bleyti með blettahreinsir sem er sérstaklega gerður til að fjarlægja fitu og olíu. Hér gæti jafnvel þvottalögur dugað. Einnig má prufa að leggja flíkina í borðediksblandað volgt vatn í nokkra klukkutíma. Að þessu loknu skaltu setja flíkina á hæsta mögulega hitastig á þvottavélina einsog flíkin þolir og þvottamerkið segir til um.

Áður en þú þurrkar flíkina í þurrkara skaltu skoða vel hvort bletturinn sé farin. Ef flíkur eru þurrkaðar við hátt hitastig í þurrkara gætir þú verið að festa blettinn endanlega í þvottinum. Þetta á við alla bletti.

Ef bletturinn er enn til staðar eftir blettameðhöndlunina hér að ofan þá gæti verið ráð að nota sterkan blettahreinsir með ensímum, hella yfir blettina og bursta létt yfir með mjúkum bursta. Ef um viðkvæma flík er að ræða eða ofangreint hefur ekki dugað þá gæti eina leiðin verið að fara með flíkina í næstu efnalaug,“ stendur á síðunni.

Nú er bara að prófa sig áfram og athuga hvort bletturinn náist ekki úr.