Íslensku þættirnir Sambúðin hefja göngu sína á Stöð 2 í kvöld, miðvikudagskvöldið 18. október, klukkan 19.10. Það má með sanni segja að þættirnir séu óvenjulegir og raunar mætti kalla þetta samfélagslega tilraun fremur en sjónvarpsþátt.

Þættirnir eru sex talsins en þátttakendurnir eru tólf; sex þeirra eru komnir á eftirlaunaaldur og sex þeirra eru nýlega orðnir fullorðnir. Þessum tólf einstaklingum er raðað niður í sex pör, pörin flytja inn saman eitt af öðru og búa saman í nokkra daga. Já, hljómar óvenjulegt og skal það tekið fram að þátttakendur þekktust ekki innbyrðis áður en tökur hófust.

Framandi ferð í bankann

„Ég man mjög vel eftir því þegar að þessi hugmynd fæddist í kollinum á mér,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, einn af hugmyndasmiðum þáttanna og þáttarstjórnandinn. „Faðir minn, sem átti ekki einu sinni debetkort, bað mig fyrir tæpum áratug að koma með sér í bankann. Hann ætlaði að tæknivæðast og fá sér heimabanka. Kannski vert að taka það fram að faðir minn er ekkert tæknitröll en ætlaði að reyna að halda í við samtímann. Ég trilla með honum í bankann, tala við þjónustufulltrúa sem prentar út fyrir hann skilmála netbankans sem hann þarf að undirrita. Nema hvað, að faðir minn, þá á sjötugsaldri, gaf sér sinn tíma og las alla skilmálana, algjörlega frá A til Ö. Mér fannst þetta svo framandi. Ég hefði ekki hikað við að skrifa undir án þess að lesa svo mikið sem eina málsgrein! Bara kviss, búmm, bamm,“ bætir hún við.

Í kjölfarið fór Lilja að velta fyrir sér kynslóðabilinu, gerði innslag í Ísland í dag þar sem eldra fólk og yngra fólk spurði hvort annað út í gömul og ný orð og fann að það var eitthvað meira þarna sem væri hægt að vinna með.

„Ég settist niður með manninum mínum, Guðmundi R. Einarssyni, stjörnuvefara, og viðraði grunnhugmyndina að þessum sjónvarpsþætti. Hann er mjög stuðningsríkur, svo ég tala nú ekki með geysilega frjótt ímyndunarafl, og studdi mig áfram og kom með góða punkta um hvernig væri hægt að útfæra hugmyndina. Ég kom þessu niður á blað og hann hannaði fyrir mig skjal sem ég svo fór með út um allt. Í mínum huga var enginn vafi á að þessi sjónvarpsþáttur yrði keyptur á stundinni af einhverri sjónvarpsstöðinni,“ segir Lilja. Viðtökurnar voru góðar, tímapunktur rangur.

„Ég fékk ekki já-ið sem ég þráði fyrir þessum tæpa áratug en hugmyndin sat alltaf með mér og kom reglulega upp í kollinn á mér.“

Eru þessar kynslóðir líkari en við höldum?

Það var svo í fyrra sem framleiðslufyrirtækið Skot kveikti á perunni og hófu þróun á þáttunum sem teknir voru upp í maí á þessu ári. Eins og áður segir eru tólf þátttakendur í þáttunum; sex eldri borgarar og sex ungmenni. Þessum tólf einstaklingum er raðað niður í sex pör sem innihalda eina unga og eina eldri manneskju, pörin flytja inn saman eitt af öðru og búa saman í nokkra daga. Þau taka virkan þátt í lífi hvors annars og áhugamálum, þurfa að koma sér saman um hvað eigi að vera í matinn og velja sjónvarpsefni á kvöldin. Inni á milli fá þau skemmtileg verkefni sem varpa ljósi á kynslóðabilið en verður einnig kveikja að áhugaverðum umræðum þar sem eldri og yngri manneskjan miðla sinni reynslu, sínum þrám og draumum.

„Hvað gerist þegar þessir tveir hópar, sem við tölum oft um í þjóðfélagsumræðunni en sjaldan við, koma saman og eyða lífinu saman?

Rannsóknir hafa sýnt að það sé afar gjöfult fyrir þessa tvo aldurshópa að verja tíma saman. Getur verið að þessar tvær kynslóðir séu ekki eins ólíkar og við höldum við fyrstu sýn?“ spyr Lilja, en hún er að vonum spennt með að sýna þjóðinni þættina.

„Þetta er heimild. Við erum með ákveðnar hugmyndir um ungmenni. Þau eru alltaf í símanum, íslenskan þeirra dalar og þau er ekki dugleg. Um eldri borgara höfum við líka þessar hugmyndir. Þeir eru hrumir, lifa ekki eins öflugu félagslífi og sér yngra fólk og svo framvegis. En bíðið þið bara, þessar staðalímyndir gætu ekki verið fjær sannleikanum.“

Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr fyrsta þættinum sem sýndur er klukkan 19.10 í kvöld á Stöð 2: