„Ég átti ekkert val um hvort ég gæti hætt að spila eða ekki. Ég hafði ekkert vald yfir spilafíkninni. Hún átti mig alveg á þessum tíma.“

Þetta segir Georg Ísaksson í viðtali í hlaðvarpsþættinum Spilavandi. Í þættinum fer Georg yfir spilasöguna sína, áhrif og afleiðingar. Hann ræðir meðal annars reynslu sína af bingó, íþróttaveðmálum, póker og spilakössum.

Kynntist kössunum níu ára

Georg var ekki hár í loftinu þegar að hann kynntist heimi veðmálanna.

„Ég kynntist kössunum fyrst þegar ég var níu ára. Það er spaugilegt að það var 16 ára aldurstakmark en ég var bara lítill gutti þegar ég byrjaði. Ég fór í pool stofu í Nóatúni og ég man að ég fékk lánaðan koll til að ná upp í kassann,“ segir Georg. Hann varð strax hugfanginn af kössunum.

„Ég varð algjörlega heillaður af þessum tækjum sem gátu gefið pening. Fyrsta árið var bara tap en svo tókst mér að læra inná þetta. Frá 10, 11 ára til 16, 17 ára var ég með fullar hendur fjár,“ segir Georg, en á þessum tíma voru spilakassar talsvert frábrugðnir þeim spilakössum sem við þekkjum í dag. „Kassarnir voru ekki svona tölvuvæddir heldur voru þeir með gangverki eins og klukkur. Ef þú lærðir á gangverkið gastu lært inn á klukkuna.“

Georg mætti daglega í kassana þegar að skóladeginum lauk um hádegisbil og eigendur sjoppanna kipptu sér ekkert upp við þennan litla pjakk sem spilaði tímunum saman. Þegar hann var þrettán ára kynntist hann bingói sem hann stundaði grimmt. Í gegnum bingóspilið uppgötvapi hann getraunatipp. Hann var ekki búinn að tippa lengi þegar hann fékk fullt hús stiga.

„Það var dálítið gaman. Þetta var stór vinningur, hálf milljón árið 1983. Ég man að þetta var stór vinningur þá. Þetta æsti mig upp. Frá og með þessum vinningi held ég að ég hafi tippað flestar helgar,“ segir Georg. Þegar hann var í kringum sautján ára aldurinn var spilakössunum skipt út fyrir tölvuvædda kassa og þá fór að harðna á dalnum.

„Þá náttúrulega breyttist innviði kassanna. Það var meira tölvuvætt og ekkert gangverk lengur. Ekkert sem ég gat lært á. Ég reyndi mjg lengi að læra á þá en ég tapaði bara peningunum mínum mjög hratt og örugglega,“ segir Georg. Þá fór hann að falsa ávísanir af mikilli áfergju.

„Ég var handtekinn fyrir ávísanafals og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þetta gerði ég til að fjármagna fíknina. Ég var ekki nema níu að verða tíu ára þegar þegar ég byrjaði að læðast inn í bíla að stela ávísanaheftum. Ég var ekki gripinn við það. Þetta var ákveðin vakning fyrir mig að fá þennan dóm átján ára gamall. Ég hafði komist upp með alls konar vitleysu þegar ég var krakki en þetta var eins og köld tuska í andlitið. Það var ekki beint stefnan að verða glæpamaður. Eftir þennan dóm hætti minn misheppnaði glæpaferill. Ég hætti að svíkja og stela og falsa ávísanir,“ segir Georg. Í staðinn byrjaði hann að fá lánað og lét skrifa á sig í ýmsum sjoppum og verslunum eins og tíðkaðist á þessum tíma. „Ég fékk yfirleitt lánað miklu meira en ég gat borgað til baka. Það var ekki hægt að kæra fyrir það.“

„Krækiber í helvíti“

Georg fór í sína fyrstu meðferð við spilafíkn í janúar árið 1993. Það var þó ekki sérhæfð meðferð heldur meðferð sniðin að alkóhólistum.

„Það var mjög skrýtið. Enginn skildi mig. Ég var eins og krækiber í helvíti. Yfirlæknirinn reyndi að sýna þessu einhvern skilning en það var bara engin þekking eða reynsla til staðar á þessum tíma,“ segir Georg sem var einnig virkur alkóhólisti á þessum tíma. Eftir sex vikna meðferð fór hann aftur í sama farið – stundaði bingó, stóð löngum stundum fyrir framan spilakassa og tippaði grimmt.

„Það var ekki fyrr en upp úr tvítugu sem spilamennskan var farin að skaða mig verulega. Ég varð oft þunglyndur eftir spilatúrana. Kvíðinn. Eftir langar helgar voru mánudagar og þriðjudagar oft mjög erfiðir. Stundum setti ég sængina upp fyrir haus og fór ekkert á mánudögum.“

Árið 1996, þegar að Georg var 26 ára gamall, fór hann í sína aðra meðferð, bæði við áfengis- og spilafíkn. Þegar hér er komið við sögu var hann líka orðinn stórtækur í pókerspili.

„Tíminn hverfur alveg við það að veðja. Það er mjög auðvelt að tapa miklu í póker. Lengsti spilatúr sem ég hef tekið í pókernum er 56 klukkutímar. Frá föstudagskvöldi til sunnudagsmiðnættis,“ segir Georg og bætir við að pókerinn hafi verið félagsleg iðja, gjörólíkt spilakössunum. „Þar viltu helst að enginn horfi á þig.“

Pókerinn felldi hann

Í janúar árið 2000 fór Georg í enn eina spilameðferðina og hætti að spila í rúm níu ár. Hann gekk í GA, Gamblers anonymous, og kynntist fólki sem var að glíma við sömu vandamál og hann. Þessu níu ár voru góð í lífi Georgs. Hann menntaði sig í lögfræði og náði að sinna áhugamálum sínum; sótti meðal annars leiklistarnámskeið. Það þarf kannski ekki að taka það fram að fjármálin löguðust líka heilmikið.

„Ég kunni ekkert rosalega vel á að lifa lífinu. Ég hafði aldrei lært það. Allt í einu átti ég peninga til að gera eitthvað sem ég átti ekki áður því það fór allur peningurinn í fjárhættuspil. Spilafíknin tók öll áhugamálin frá mér,“ segir Georg. Bakslagið kom aftan að honum. „Sumarið 2008 þá deyr pabbi. Ég veit ekki hvort það tengist beint en það var áfall. Hann var ekki nema 65 ára þegar hann deyr. Ári seinna, í október 2009 settist ég við pókerborðið aftur og byrjaði að spila póker. Ef þú hefðir spurt mig viku áður hvort ég myndi spila einhvern tímann aftur þá hefði ég sagt að ég myndi aldrei spila aftur. Ég væri frjáls.“

Georg bjó á Akureyri á þessum tíma, frétti af pókerklúbbi, labbaði inn og byrjaði að spila. Í framhaldinu spilaði hann flest kvöld og fór að stunda spilakassana aftur. Tók upp þráðin frá árinu 2000.

„Ég missti tökin fljótlega eftir að ég byrjaði að spila póker aftur,“ segir Georg og lýsir eilífri leit spilafíkilsins að stóra vinningnum í spilakössum. „Ég hef tvisvar sinnum fengið hann. Í bæði skiptin hef ég tapað því fljótt aftur,“ segir Georg sem vann 3,5 milljónir árið 2014. „Ég fékk vinninginn borgaðan út í byrjun mánðar og var farinn að fá lánað fyrir sígarettum í lok mánaðarins. Fyrsta daginn eyddi ég hálfri milljón í spilakassa um leið og ég var búinn að fá greiðsluna. Ég eyddi hálfri milljón á klukkutíma. Það var mjög súrrealískt. Ég tapaði rúmlega milljón þessa helgina því ég tapaði hálfri milljón í pókernum líka. Svo tippaði ég fyrir 300.000 krónur.“

Spilalaus í níu ár

Í dag er Georg búinn að vera spilalaus síðan 2. júlí árið 2014. Þann dag tapaði hann mánaðarlaununum sínum degi eftir útborgun. Það hafði svo sem gerst áður en þennan dag upplifði hann algjöra uppgjöf. Hann byrjaði aftur að sækja fundi á vegum GA. Þá fór hann einnig að ganga til geðlæknis og fíknifræðings sem hann gerir enn þann dag í dag. Afleiðingar af því að hafa stundað fjárhættuspil bróðurpart ævinnar eru margvíslegar.

„Ég brann út í janúar árið 2015. Þá var ég búinn að vera spilalaus í rúmt hálft ár og upplifði algjöra örmögnun. Ég fór í ár í Virk. Það var mjög gott. Ég hafði mjög gott af því en það tókst ekki að koma mér út á vinnumarkaðinn. Ég er búinn að vera á örorku síðan,“ segir Georg. Hann er greindur með kæfisvefn, sykursýki og of háan blóðþrýsting. Hann hefur litla orku fyrir daglegar athafnir en gerir það sem hann getur. Gerir sitt besta. Hann segir bráðvanta sérhæfða aðstoð fyrir spilafíkla á Íslandi og er ekki í nokkrum vafa með að banna ætti spilakassa.

„Spilakassar hafa rænt mig mestu, sérstaklega fjárhagslega. Það er algjörlega ótakmarkað það sem ég get eytt í kössunum. Kassinn bara étur. Það er mjög auðvelt að eyða milljónum á dag í það.“