Athafnakonan Hildur Eik Ævarsdóttir býr í Bandaríkjunum með unnusta sínum, Kristjáni Ólafsson, og börnunum þeirra þremur. Hildur rekur vefverslunina NOROM, sem hefur átt góðu gengi að fagna, og tekur einnig þátt í rekstri unnustans í framleiðslu á Helix7 vodka, Aski gin og handspritti. Hildur og fjölskylda er ekkert á leiðinni aftur heim til Íslands eftir margra ára dvöl vestan hafs, en Hildur segir að einn helsti kosturinn við að búa í Bandaríkjunum sé að tækifærin séu á hverju strái.

Vildi ekki heim

Ævintýraþráin greip Hildi að unga aldri, en eins og hún segir sjálf frá var hún orkumikill krakki.

„Eins og móðir mín segir oft, þá hef ég alla tíð verið eins og með rakettu í rassinum. Èg verð skapvond ef ég fæ ekki að hreyfa mig þó það væri bara stutt skokk. Ég þarf alltaf að hafa hreint í kringum mig og vildi helst óska að það væru 36 tímar í sólahringnum til að geta sinnt öllu og átt meiri quality tíma með börnunum,“ segir Hildur með bros á vör. Hún var aðeins táningur þegar að hún settist á skólabekk í Bandaríkjunum.

Hildur er mikill orkubolti.

„Þegar ég var sautján ára fékk ég tækifæri til að fara í „high school“ í Winter Park í Flórída, þar sem foreldrar mínir voru með hús. Við vorum öll saman í Flórída í hálft ár, en þá þurftu þau að snúa heim til Íslands. Ég fékk þá að búa hjá góðri íslenskri vinkonu þeirra, en svo er kom að því að skólaárið var á enda vildi ég alls ekki heim. Það endaði með því að gamla settið þurfti að koma út að sækja mig,“ segir Hildur og hlær. Hennar beið samt annað ævintýri, fyrr en hún átti von á.

„Ég fór heim og var í hálfgerðri fýlu veturinn eftir Ameríkudvölina. Það þurfti ekki nema eitt símtal frá frænku minni til að hressa mig við, en hún var á leiðinni til draumaeyjunnar Mýkonos á Grikklandi og bauð mér með. Ég kýldi á það, við fengum þar vinnu og áttum ævintýralegt, skemmtilegt sumar. Enn á ný var ég komin heim, en þó alltaf í leit að nýju ævintýri.“

Ástin bankaði að dyrum

Árið 2006 sótti Hildur um skóla í Los Angeles, nánar tiltekið í Santa Monica, komst inn og flutti til borgar englanna. Þá var ekki aftur snúið.

„Síðan þá er ég búin að flækjast á milli Los Angeles, New York, Miami og Íslands,“ segir Hildur. Örlögin gripu í taumana vestan hafs og ástin bankaði að dyrum.

„Eftir nokkurra ára veru í Bandaríkjunum kynntist ég svo Kristjáni, manninum mínum, í New York, sem er skemmtileg tilviljun, því við bjuggum bæði í Los Angeles á þessum tíma. Í dag búum við í Miami og eigum við saman þrjú börn á aldrinum eins til fimm ára svo það er sjaldan lágdeyða á okkar heimili. Lífið gæti ekki verið betra.“

Hér má sjá Hildi og Kristján, unnusta hennar, á Grammy-verðlaunahátíðinni í janúar síðastliðnum.

En langar Hildi aldrei að flytja heim?

„Aldrei segja aldrei,“ segir hún og brosir. „En við búum á Íslandi á sumrin og svo í mánuð í kringum jólin. Við eigum stórar fjölskyldur heima og erum bæði með rekstur á Íslandi þannig að Ísland togar óneitanlega alltaf í okkur. Við erum svo heppin að krakkarnir okkar eru með pláss á leikskóla er við komum heim, sem er ómetanlegt til að halda enn betur í íslenskuna,“ segir Hildur. Það stendur ekki á svörunum þegar að Hildur er spurð um hvað togar í hana í Bandaríkjunum.

„Svo margt, við eigum mjög gott líf hérna úti og tækifærin eru endalaus. Ætli beri ekki helst að nefna fjölbreytilegan lífsstíll og veðrið, sem bætir sannarlega lífsgæðin umtalsvert. Ég elska sjóinn og við reynum að synda allavega vikulega í sjónum.“

Gala kvöld með krökkunum

Það er óhjákvæmilegt að spyrja Hildi hvernig lífið hefur verið síðustu vikur í skugga COVID-19 heimsfaraldursins.

„Þetta er ástand, en gæti verið svo miklu verra. Hér er allt lokað, allir almenningsgarðar og leikvellir. Það er mjög takmarkað hvað hægt er að gera. Hér má ekki fara neitt án þess að vera með grímu á sér, það eina sem má gera er að fara út í matvörubúð og apótek. Við getum jú farið út að labba og hjóla eða á línuskauta. Við erum svo heppin að vera með sundlaug og bát þannig við erum mikið meira úti en venjulega og kunnum vel að meta það. Lífið breyttist mikið að sjálfsögðu. Við erum að vinna heiman frá okkur með þrjú lítil og kraftmikil börn. Það bjargar okkur alveg að við erum með au pair frá Íslandi, hana Ragnhildi, hún er alger himnasending vægast sagt. Hún er ekki bara að passa börnin hún er orðin herleiðtogi á heimilinu og passar upp á að allt gangi upp. Ég veit ekki hvar við værum án hennar. Takk Gaga,“ segir Hildur og vísar í gælunafn Ragnhildar. Hildur bætir við að fjölskyldan hafi lært ýmislegt á þessum fordæmalausu tímum.

Hildur með tvö af þremur börnum sínum.

„Þrátt fyrir að þetta sé mjög erfitt þá lærum við að að meta betur hvað við höfum það rosalega gott og að reynum að pirra okkur ekki á smá hlutum sem skipta engu máli í stóra samhenginu. Við erum búin að vera miklu meira úti í garði en venjulega og elda mikið heima, reyna gera gott úr þessu öllu saman og njóta samverunnar,“ segir Hildur og heldur áfram.

„Við héldum gala kvöld um daginn, klæddum okkur upp, fórum í sparigallann og elduðum eins og á jólunum. Krökkunum fannst það ótrúlega spennandi. Ég hef gefið mér miklu meiri tíma í að hringja í fjölskyldu og vini og finn hvað ég sakna þess mikið að fá ekki að vera í kringum vini og fjölskyldu. Svo auðvitað litlu hlutirnir sem voru svo sjálfsagðir eins og að fara út að borða eða í bíó, það má ekki taka neinu sem gefnu, til dæmis bara það að geta sent krakkana í leikskólann þar sem þau fá að læra og rasa út. Það er hægt að draga mikinn lærdóm af þessu öllu saman og maður reynir sitt besta við að gera krakkana hamingjusama, halda húsinu þokkalega hreinu og vinna, allt í senn.“

Nafnið fæddist við eldhúsborðið

Talið berst að vefversluninni Norom, sem má segja að sé líkt og fjórða barnið hennar Hildar. Á Norom er hægt að versla fatnað, fylgihluti og ýmislegt fleira.

„Ég hef alltaf haft áhuga á tísku en eftir að ég eignaðist Ariel, eldri stelpuna mína, þá fór ég mikið að pæla í barnafötum. Úrvalið er mikið og hægt að fá föt á góðu verði hérna úti. Ég byrjaði í raun á því að kaupa helling af fallegum merkjavörum til að selja á Íslandi fyrir ein jólin. Þetta var eitthvað sem var ekki fáanlegt á Íslandi þá og ég gat selt mjög ódýrt. Eftir jólin sat ég uppi með smá lager og mágkona mín, Katrín, benti mér á að hægt væri að selja á Facebook. Þar setti ég inn myndir af fötunum en hreyfingin var lítil ef ég var ekki reglulega að bæta við fötum. Þetta gekk hægt þar til ég fann bestu yoga buxur sem ég hef prófað frá merki sem heitir 90 degree og fór að selja,“ segir Hildur, en þá tók salan stóran og mikinn kipp.

Ariel, eldri dóttir Hildar.

„Salan gjörbreyttist á einum degi og eignaðist stóran, hamingjusaman kúnnahóp. Út frá því reyndi ég að komast í allskonar fallegan og góðan æfingafatnað og aðrar tískuvörur. Eftir að boltinn var farinn að rúlla langaði mig að búa til mitt eigið merki og tengja það við góðgerðarstarfsemi,“ bætir hún við. Nafnið Norom fæddist við eldhúsborðið á frekar spaugilegan hátt.

„Einn daginn lá dagblað á eldhúsborðinu mínu á hvolfi. Greinin var um Hilary Clinton og Donald Trump. Á hvolfi las ég Norom og hugsaði hvað er nú það, en sneri blaðinu svo við. Þá var hið rétta orð Moron, ekki Norom. Ég leitaði á netinu og fann út samkvæmt „urban dictionary“ að Norom væri einhver sem er vingjarnlegur og góður við náungann. Hitti beint í mark.
Norom hefur reglulega safnað fyrir einhverjum ákveðnum málstað, góðgerðarfélög og einstaklingum sem eiga um sárt að binda. Með því að til dæmis stoppa ofbeldi eða einelti erum við að hvetja fólk til að vera Norom, en ekki Moron. Markmiðið var að búa til brand sem merkir það góða og með því að ganga í Norom erum við tákn um eitthvað betra,“ segir Hildur en slagorð merkisins er No Room For Morons, eða Ekkert pláss fyrir hálfvita.

Styrkir Kvennaathvarfið

Í skugga heimsfaraldursins sem hefur lagst þungt á fjölmörg lönd, þar á meðal Ísland, ákvað Hildur að styrkja Kvennaathvarfið, en allur ágóði af vörum merktum Norom rennur til Kvennaathvarfsins í maí. En af hverju Kvennaathvarfið?

„Það er auðvelt að svara því. Ef einhver þarf nauðsynlega á stuðningi að halda á þessum erfiðu tímum þá er það Kvennaathvarfið. Tölur hafa nýverið sýnt að félagsleg einangrun eykur hættuna á heimilisofbeldi og hefur það því miður aukist um 10% að undanförnu, sem eru afar sorglegar fréttir. Kvennaathvarfið vinnur vandað starf sem verður að hlúa að.“

Hildi finnst afar mikilvægt að þeir sem eru aflögufærir styrki góðgerðarmál og gefi þannig til baka til samfélagsins.

Turtildúfurnar.

„Það fylgir þessu svo mikil fræðsla, til dæmis þegar ég var yngri þá var þetta svo lítið rætt, hvorki einelti né ofbeldi. Núna opnar fólk augun og er ófeimið við að ræða vandamálin, hvort sem það sé ofbeldi, veikindi eða hvað sem er. Það er líka frábært hvað margir vilja taka þátt og aðstoða mig við að styrkja Kvennaathvarfið í maí. Án vina minna og fjölskyldu hefði ég aldrei getað komið auglýsingamyndbandinu í loftið. Ég vil sérstaklega þakka öllum sem komu fram í myndbandinu og Arnari Helga á Tjarnagötunni, Halldóru Þorsteins og Camillu Stones, sem aðstoðuðu mig á bak við tjöldin. Ég hlakka til og mun halda áfram að leggja mitt að mörkum.“

Myndbandið sem Hildur talar um má sjá hér fyrir neðan en margir þjóðþekktir Íslendingar koma þar fram, svo sem leikarinn Darri Ingólfsson, söngkonan Þórunn Antonía og leikkonan Anita Briem:

Spennandi tímar

Það má vægast sagt segja að Hildur sé atorkusöm kona, alltaf með mörg járn í eldinum. En hvað ber framtíðin í skauti sér?

„Við ætlum að koma heim í sumar. Eins og er þá erum við með fullt af verkefnum í gangi. Við erum á fullu að búa til grímur, bæði fyrir Norom og önnur fyrirtæki. Kristján framleiðir handspritt af fullum krafti. Svo er ég að klára kokteila uppskriftarbók fyrir Helix7 Vodka og Ask gin sem verður seld með í gjafaöskjum í náinni framtíð, þannig það er alltaf allt á fullu hjá okkur. Mjög spennandi tímar framundan.“

Hildur vinnur nú að bók með kokteilauppskriftum.