Það þarf ekki að fletta neinum blöðum um það að djúpsteiktur kjúklingur er óhollur. Ég fann þessa uppskrift á bloggsíðunni aimeemars.com, en um er að ræða hollari útgáfu af djúpsteiktum kjúklingi því kjúklingurinn er nefnilega bakaður í ofni. Algjört lostæti!

Kornflögu kjúklingur

Hráefni:

3 kjúklingabringur, skornar í litla bita
2 bollar súrmjólk
2 egg
2 msk. maíssterkja
3 hvítlauksgeirar, maukaðir með hvítlaukspressu
1 tsk. oreganó
¼ tsk. cayenne pipar (má sleppa)
salt og pipar
3 bollar kornflögur (Cornflakes), muldar
60 g smjör, brætt

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Takið til ofnplötu og smyrjið hana með smjöri eða spreyið með bökunarspreyi. Blandið súrmjólk, eggjum, maíssterkju, hvítlauk, oreganó, cayenne pipar, salti og pipar saman í skál. Marinerið kjúklinginn í hálftíma ef þið hafið tíma, annars er allt í lagi að sleppa því. Rúllið síðan kjúklingabitunum upp úr kornflögunum og raðið á ofnplötuna. Drissið brædda smjörinu yfir alla bitana. Setjið inn í ofn og bakið í 20 til 25 mínútur, en passið að snúa bitunum við eftir 10 til 12 mínútur.