Ég elska fátt meira en góða pönnuköku.

Það fer allt eftir því í hvernig skapi ég er, hvort ég geri amerískar pönnukökur, franskar og fylltar eða gömlu, góðu íslensku pönnukökurnar.

Í bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll, ákvað ég hreinlega að bjóða upp á uppskriftir að öllum þremur og hér fylgir uppskriftin að frönsku „crêpes“ pönnukökunum svokölluðu.

Hægt er að fylla „crêpes“ með nánast hverju sem er, en í þessari uppskrift fer ég yfir frekar skothelda eplafyllingu sem bráðnar í munni.

Myndirnar af þessu lostæti tók hin yndislega Sunna Gautadóttir sem nær að gera allar matarmyndir girnilega og fallegar.

Gleðilegan pönnukökubakstur!

Franskar crêpes með eplafyllingu

Crêpes – Hráefni:

2 bollar mjólk
1 1/3 bolli hveiti
1 egg
1 msk olía
1/2 tsk lyftiduft
2 msk sykur

Eplafylling – Hráefni:

3 stór epli, afhýdd og skorin í litla bita
3 msk púðursykur
1 tsk kanill

Aðferð – Crêpes:

Blandið öllum hráefnum saman og þeytið þar til blandan er kekkjalaus. Setjið pönnu á hellu við háan hita og spreyið bakstursspreyi á hana. Þegar pannan er orðin mjög heit hellið þið smá af deiginu á hana og dreifið því jafnt yfir pönnuna. Deigið á bara rétt að hylja pönnuna því pönnukökurnar eiga að vera mjög þunnar. Steikið kökurnar í 1-3 mínútur á annarri hliðinni og um mínútu á hinni hliðinni.

Aðferð – Eplafylling:

Setjið öll hráefni í skál og blandið vel saman. Leyfið þessu að standa í 20 mínútur. Það er gott að undirbúa fyllinguna og steikja síðan pönnukökurnar á meðan hún stendur. Setjið blönduna á pönnu og hitið yfir meðalhita þar til eplin verða mjúk, eða í 3-5 mínútur. Setjið eplafyllingu í miðjuna á hverri pönnuköku og lokið kökunum. Þessar eru miklu betri ef bæði pönnukaka og fylling er heit þegar þær eru bornar fram.