Mér finnst rosalega gaman að leika mér í matargerð. Ég er til í að prófa nánast hvað sem er þó ég aðhyllist enga sérstaka matarstefnu. Ég hef eldað sitthvað sem er ketó en þessi uppskrift er af síðunni Cast Iron Keto og mæli ég 100 prósent með þessum geggjuðu kjötbollum. Njótið!

Hráefni:

450 g kjúklingahakk
1 paprika, smátt söxuð
1 jalapeño pipar, smátt saxaður
1/2 laukur, smátt saxaður
handfylli kóríander, saxað
1 msk. taco krydd
safi úr 1/2 súraldin
1 bolli rifinn ostur að eigin vali
3 msk. olía
salsa sósa, rifinn ostur, sýrður rjómi, jalapeño pipar og kóríander til að bera fram með

Aðferð:

Stillið ofninn á grillstillingu. Blandið hakki, grænmeti, kryddi, súraldinsafa og rifnum osti vel saman í skál. Hitið olíuna yfir meðalhita í stórri pönnu. Búið til bollur úr hakkblöndunni og steikið í 2 til 3 mínútur á hvorri hlið. Hellið salsa eða pasta sósu í pönnuna og drissið rifnum osti yfir. Setjið inn í ofn í 3 til 5 mínútur. Skreytið með sýrðum rjóma, kóríander og jalapeño.