„Þema sýningarinnar er átök manns og náttúru og spurningin sem varð kveikjan að þessu þema er sú hvort maðurinn sé að ganga of hratt á náttúruna og hvort hún muni nokkurntíman slaka á okkur, verðum við ekki að slaka á náttúrunni?“ segir Aron Leví Beck, listamaður, byggingafræðingur og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Aron opnaði nýverið sýningu á sex málverkum á Forréttabarnum, en sýningin opnaði rétt áður en hertar samkomutakmarkanir tóku gildi.

„Ég varð að koma þessari sýningu frá mér. Þegar ég var að hengja hana upp voru samkomutakmarkanir ekki komnar á þetta stig sem það er í dag. Það er víst erfitt að sjá svona fyrir, enda fordæmalausir tímar,“ segir Aron og heldur áfram.

„Ég ákvað að halda enga formlega opnun á sýningunni vegna Covid19 heldur fær fólk tækifæri á að koma og skoða hana á sínum tíma og forsendum. Sýningin kemur til með að standa út október svo það er nægur tími.“

Hann telur listina á fordæmalausum tímum líkt og í dag gegna mikilvægu hlutverki.

„Ég tel að fólk þurfi alltaf á list að halda en sagan hefur sýnt okkur að listin spretti aldrei eins mikið upp og í heimskreppum. Listamenn fanga oft tilfinningar og upplifanir með verkum sínum sem eru mikilvæg til tjáningar nú og sem arfleið okkar tíma, þegar líður á. Kannski er listin einmitt sérstaklega mikilvæg á svona tímum, þó svo hún eigi vissulega alltaf sess í þjóðfélaginu.“

Staður án ritskoðunar

Þetta er ekki fyrsta sýningin sem Aron setur upp og án efa ekki sú síðasta. Það er helst frelsið við listsköpun sem heillar hann og dregur hann æ oftar að striganum.

Reykjavík með augum Arons.

„Sköpun hefur alltaf skipað stóran sess í mínu lífi, allt frá því ég var barn. Ég spilaði og samdi tónlist, fór í iðnnám og síðan byggingafræði þar sem stór partur af námi og starfi er einmitt sköpun. Það sem listin gefur mér í dag er útrás á þessari sköpunargleði, þar get hef ég algjört frelsi til tjáningar, sé það á hugmyndum, tilfinningum eða öðru því líku. Það sem listin gefur mér líka aukalega er staður án ritskoðunar. Á mörgum sviðum lífsins, og þar má nefna byggingarfræðina eða pólitíkina, er sköpun og hugmyndavinna velkomin en þar stendur og fellur útkoman ekki eingöngu með þér. Það þarf stöðugt að ráðfæra sig við aðra, komast að samkomulagi og vera í samvinnu með samstarfsfólki, borgarbúum, lögum og reglum. En inni í studíóinu mínu, með strigana mína og liti hef ég algjört frelsi til að gera það sem mér dettur í hug,“ segir Aron og bætir við að frelsið geti verið tvíeggja sverð.

„Þetta frelsi getur samt reynst gildra, því þegar möguleikarnir eru endalausir er erfitt að komast að „niðurstöðu“ eða endanlegri útkomu því það er allt undir þér einum komið og í raun enginn annar sem skilur þá innri baráttu sem er að eiga sér stað. Það getur reynst flókið á tímum. Því tel ég svo mikilvægt að listamenn vökvi sjálfskærleika frekar en sjálfsgagnrýnina, þó svo gagnrýni geti verið af hinu góða að þá er kærleikurinn alltaf betri.“

Aftur í hokkí

Aron vakti fyrst athygli landsmanna hvorki fyrir listsköpun né pólitík, heldur þegar hann gerði íþróttafréttamanninn Adolf Inga Erlendsson kjaftstopp í beinni útsendingu í sjónvarpi eftir íshokkíleik, eins og sjá má hér fyrir neðan. Aron gerði gott mót í íshokkí á sínum yngri árum, var meðal annars markvörður í íslenska landsliðinu um tíma, en byrjaði nýverið aftur að æfa sportið eftir áratuga langt hlé.

„Íshokkí hefur alltaf verið stór partur af mínu lífi og má segja að það hafi mótað mig mikið. Þó svo að ég hafi hætt að spila í tíu ár leið mér alltaf eins og ég væri nýhættur. Ég var kallaður til, óvænt, í sumar og fenginn til að spila mót. Það má segja að það hafi orðið kveikjan að því að byrja aftur,“ segir Aron og heldur áfram.

„Þó það sé einhver hreyfing sem felst í því að hlaupa á eftir börnunum mínum þá er það ekki nóg til að uppfylla hreyfiþörf fullorðins manns með ADHD. Ég fann það sérstaklega á þessum sérstöku tímum sem við lifum á, að við mikla heimveru þurfti ég aðeins meiri útrás. Þegar ég stíg á svellið er eins og ég stígi inn í aðra veröld, þá er ekkert annað sem kemst að, algjör núvitund. Markmiðið með þessu er fyrst og fremst að njóta og hafa gaman en ekki síður reyna að vera að gagni fyrir liðsfélagana.“

Gengur upp eins og góður kapall

Ein af myndunum á sýningu Arons.

Aron hefur verið varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar síðan árið 2018 og kann vel við það stóra verkefni sem pólitíkin er.

„Að vinna sem stjórnmálamaður er ótrúlega skemmtilegt. Það sem er mest gefandi í því starfi er að sjá hugmyndir verða að veruleika, hugmyndir sem geta skipt sköpum fyrir marga. Maður kynnist magni af fólki hvaðan af úr samfélaginu og jafnvel heiminum og það er frábært. Starfið er einnig fjölbreytt svo það hentar mér ákaflega vel og ég mun koma til með að halda áfram þátttöku minni á pólitískum vettvangi næstu árin. Það er ómögulegt að segja til um hvert lífið leiðir mann en ég hef mína stefnu og hugmyndir og sigli ótrauður áfram.“

Listmálari, hokkíspilari og pólitíkus, sem einnig rekur stórt heimili og á von á sínu öðru barni með söngkonunni Karitas Hörpu Davíðsdóttur, sem auk þess á einn son úr fyrra sambandi. Á Aron einhverjar mínútur aflögu í sólarhringnum?

„Þetta hefur gengið upp eins og góður kapall hingað til. Það koma alveg upp klemmur en með skipulagi og góðri samvinnu hefur þetta gengið og meira að segja oft tími aflögu til að fara í sund og verja tíma með fjölskyldunni.“

Ég hef sett upp myndlistarsýningu á Forréttabarnum sem kemur til með að standa opin út Október. Vegna covid-19 ákvað ég…

Posted by Albeck.Art on Friday, October 2, 2020