Þú gætir verið að geyma eggin þín á kolvitlausan hátt
Skemmast eggin þín á methraða? Þetta gæti verið ástæðan.


Í flestum ísskápum eru sérstakar eggjahillur í hurðinni og því geyma margir eggin sín þar. Samkvæmt grein sem Daily Mail birti nýlega eru það hins vegar stór mistök að mati sérfræðinga.
Ef egg eru geymd í hurðinni í ísskápnum skemmast þau fyrr. En af hverju? Jú, ástæðan er einföld. Hurðin á ísskápnum er opnuð í tíma og ótíma og stundum haldið opinni í smá stund. Það þýðir að miklar hitabreytingar geta átt sér stað á því svæði. Ef það er eitthvað sem er óvinur eggja eru það miklar sveiflur í hitastigi og því geta þau skemmst fyrr en ella.
Þá er einnig gott að hafa í huga að það er ekki gott að geyma eggin við hliðina á hráu kjöti vegna krossmengunar. Besta leiðin til að geyma egg er raunar ekki í ísskápnum heldur fyrir utan hann í rými sem er um það bil 12°C heitt. Þannig geymast eggin í eina til tvær vikur. Fyrir þá sem klára eggin ekki á þeim tíma er gott að koma þeim fyrir í hillu í ísskápnum, helst í miðjunni. Þá þarf að hafa í huga að taka ekki eggin úr ísskápnum nema eigi að neyta þeirra því egg skemmast hraðar ef þau eru tekin úr kulda og sett aftur inn í hann stuttu síðar.
Á vef Matvælastofnunar stendur svo þetta um geymslu eggja:
„Geymsla fyrir egg skal vera hrein, þurr og laus við framandi lykt. Egg skulu varin gegn höggum og sólarljósi. Hitastig við geymslu eggja hjá framleiðanda skal vera að hámarki 12°C. Egg skal geyma og flytja við það hitastig (sem helst skal haldast jafnt) sem hentar best til að tryggja heilnæmi eggja. Kjörhitastig eggja er því sem næst 12°C í flutningi og við geymslu í verslun og æskilegt er að egg séu ekki geymd sem kælivara (0-4 °C) fyrr en þau eru komin í ísskáp neytandans. Ástæða þessa er að raki getur myndast á yfirborði eggja við hitasveiflur og aukið hættu á örverumengun eggja.“
Þá er einnig bent á mjög mikilvægt atriði er varðar meðhöndlun eggja:
„Ávallt skal þvo hendur eftir meðhöndlun eggja við matreiðslu og er það mjög mikilvægt við meðhöndlun eggja sem ekki hafa verið þvegin.“