Íbúðir við Bryggjugötu í miðborg Reykjavíkur fóru formlega í sölu í vikunni en um er að ræða dýrustu íbúðir Íslandssögunnar. Hverfið heitir Austurhöfn og liggur samsíða Reykjavíkurhöfn, steinsnar frá Hörpu.

Ýmsar gerðir af íbúðum eru í boði við Bryggjugötu. Dýrasta íbúðin er á efstu hæð Bryggjugötu 4 en hún er 210 fermetrar að stærð og kostar 345 milljónir króna. Vekur athygli að í þeirri íbúð eru þrjú baðherbergi en tvö svefnherbergi.

Nokkrar stærri íbúðir á eftir að verðleggja, en stærð á þeim er á milli 290 og 353 fermetrar. Hægt er að hafa samband við fasteignasöluna Mikluborg vegna þeirra, en fasteignasalan sér um sölu allra íbúða við Bryggjugötu. Ódýrasta eignin er 49,4 fermetrar að stærð og kostar 59 milljónir. Sú íbúð er búin einu svefnherbergi og einu baðherbergi.

Ljóst er að markhópurinn sem reynt er að höfða til við Austurhöfn eru efnaðir einstaklingar, bæði Íslendingar og útlendingar. Húsvörður verður í byggingunum en gegn aukagjaldi geta íbúar pantað sér ýmsa þjónustu, til dæmis þrif, matargerð, barnapössun, gæludýragæslu, fatahreinsun og skipulag ferða.

Kynningarmyndband fyrir Austurhöfn má sjá hér fyrir neðan: