Söngkonan Nikki McKibbin, sem lenti í þriðja sæti í fyrstu seríu hæfileikaþáttarins American Idol árið 2002, er látin aðeins 42ja ára að aldri. McKibbin hafði undirgengist nokkrar aðgerðir á baki síðustu ár en það var heilablóðfall sem dró hana til dauða.

McKibbin er frá Grand Prairie í Texas og skilur eftir sig eiginmann og einn son. Hún er hvað þekktust fyrir þátttöku sína í American Idol og heillaði dómarana Simon Cowell, Paula Abdul og Randy Jackson upp úr skónum með rokklögum eftir kjarnakonur eins og Alanis Morissette, Bonnie Tyler og Janis Joplin.

Önnur Idol-stjarna, Justin Guarini, sem varð í öðru sæti í fyrstu seríunni af American Idol, minnist McKibbin í færslu á Instagram.

„Þegar við vorum í American Idol saman þá sá ég að lífið hafði verið áskorun fyrir hana og að margir hefðu ekki verið góðir við hana,“ skrifar hann meðal annars.

„Hvíl í friði „Gypsy“ og takk fyrir hláturinn, stríðnina, styrkinn, viðkvæmnina, ástina og vináttuna sem þú sýndir mér þegar við áttum saman tíma í sviðsljósinu.“

Eftir að McKibbin lenti í þriðja sæti í Idolinu fékk hún samning við RCA og 19 Records. Samstarfið við plötufyrirtækin var erfitt þar sem McKibbin neitaði að gefa út kántríplötu. Loks kom út rokkplata frá henni, Unleashed, árið 2007.

McKibbin tók þátt í raunveruleikaþættinum Celebrity Rehab with Dr. Drew árið 2008 og leitaði sér hjálpar við áfengis- og kókaínfíkn. Þá tók hún einnig þátt í þáttunum Sober House, Fear Factor og Battle of the Network Reality Stars.

Hún endurnýjaði kynnin við Idolið árið 2014 þegar að sonur hennar Tristan Langley, þá 15 ára, fór í áheyrnarprufu fyrr þáttinn, en Langley gaf móður sinni rós á Idol-sviðinu þegar að hann var aðeins fjögurra ára. Langley náði ekki sömu hæðum og móðir sín í þáttunum.

McKibbin á rauða dreglinum.