Sérfræðingar á vegum U.S. News & World Report hafa kveðið upp sinn dóm um hvert besta mataræðið til að fylgja sé. Fjórða árið í röð er það Miðjarðarhafsmataræðið sem fer með sigur af hólmi í keppninni um besta mataræðið. Eins og nafnið gefur til kynna á mataræðið uppruna sinn í löndunum við Miðjarðarhaf, þá helst Suður-Ítalíu og Grikklandi. Trefjaneysla er mikil ef mataræðinu er fylgt en einnig er lögð áhersla á neyslu fisks og sjávarfangs. Lítið rautt kjöt er í mataræðinu og aðallega mælt með neyslu á fuglakjöti. Sætindi má leyfa sér í hófi.

Miðjarðarhafsmataræðið er talið afar hollt af mörgum sérfræðingum um heim allan en í dómnefnd U.S. News & World Report sitja til að mynda næringarfræðingar, matarsálfræðingar og sérfræðingar í sykursýki og hjartasjúkdómum. Er þetta í ellefta sinn sem U.S. News & World Report velur besta mataræðið og er það gert árlega.

Alls eru 39 mataræði á listanum og gefa sérfræðingar þeim stig út frá ýmsum breytum, til dæmis hve vænleg þau eru til þyngdartaps, til lengri og styttri tíma, hve auðvelt er að fylgja þeim, hve holl þau eru og forvarnargildi þegar kemur að hjarta- og æðasjúkdómum. Hvert mataræði fékk einkunn á bilinu 1 til 5 í hverri breytu.

Vinsæl mataræði skora ekki hátt

Athygli vekur að vinsæl mataræði skora ekkert sérstaklega hátt á listanum. Ketó mataræðið, sem hefur tröllriðið heimsbyggðinni síðustu misseri, er í næstneðsta sæti og fær aðeins 1.7 stig af 5 mögulegum þegar kemur að heilbrigði. Mataræðið skorar hins vegar hátt þegar kemur að skammtíma þyngdartapi. Í 33. sæti á listanum er Atkins mataræðið, sem er lágkolvetnamataræði líkt og ketó, og í 31. sæti er Paleo mataræðið, eða steinaldarfæði.

Sveigjanlegt og lífrænt

Í öðru sæti er DASH mataræðið, sem lítið hefur verið talað um á Íslandi. Í því mataræði er lögð áhersla á neyslu grænmetis, ávaxta og fitusnauðra mjólkurvara. Einnig má neyta heilkorns, fisks og fuglakjöts í hófi. Einnig í öðru sæti, með jafnmörg stig og DASH mataræðið, er Flexitarian mataræðið. Í því felst aðallega neysla á ávöxtum, grænmeti og heilkorni og prótein fengið úr plöntum fremur en dýrum. Dýraafurða má neyta í miklu hófi og leitast við að borða eins lífrænan mat og hægt er. Viðbættur sykur og sykur í hófi.

Sigurvegarar í þessari keppni eiga það sameiginlegt að einblína á að neyta ávaxta, grænmetis, heilkorns, hneta og fræja, en mataræðin eru einnig flest mjög sveigjanleg. Þá hvetja þau einnig til þess að forðast unnar vörur eins og hægt er.

Hægt er að skoða listann yfir bestu mataræði í heimi með því að smella hér.