Heimildamyndin Atomy eftir Loga Hilmarsson var frumsýnd í Bíó Paradís 25. janúar og eru einungis tvær sýningar eftir laugardaginn 4. febrúar klukkan 14:30 og þriðjudaginn 7. febrúar.

Í myndinni er fylgst með ferðalagi fjölfatlaða listamannsins og frumkvöðulsins Brands Karlssonar til Nepal, þar sem hann gengur í gegnum sársaukafulla og krefjandi meðferð hjá einstökum heilara, meðferð sem gæti á ný veitt honum stjórn yfir líkamanum sínum.

Ótrúleg ferð til Nepal

Árið 2019 ferðaðist Brandur ásamt kærustunni sinni Ölmu og aðstoðarmönnum sínum til Nepal þar sem að hann gekkst undir óhefðbundna læknismeðferð hjá gestgjafa sínum, heilaranum Rahul. Hinn mjög svo úthverfi og opni heilari Rahul tjáði Brandi að hann gæti hjálpað honum að endurheimta hreyfigetuna og ganga á ný innan árs. Rahul tekur enga greiðslu fyrir meðferðina en krefst mikils aga og viljastyrks frá Brandi til að vinna í sínu ástandi.

Brandur hefur hins vegar aldrei verið í þeim aðstæðum að þurfa að leggja jafnmikið á sig af jafnmiklum vilja og farið er fram af honum af Rahul. Meðferðin skilar miklum árangri og Brandur öðlast mikla hreyfigetu í kjölfarið, en Rahul hins vegar getur einungis sinnt meðferðinni mánuð í senn svo það er undir Brandi komið að fylgja meðferðinni eftir af sjálfsdáðum heima á Íslandi.

Myndin var þrjú ár í tökum og leggur megináherslu á fyrsta mánuð merferðarinnar í Nepal og svo eftirfylgni með meðferðinni og framvindu áhrifa meðferðarinnar á líf og ástand Brands.

Þótt innihald sögunnar og viðfangsefni sé byggt á áföllum og erfiðri lífsreynslu er rauði þráðurinn hvað seigla mannsandans, trú á sjálfið og einbeitt sjálfsvinna getur leitt af sér jákvæðar niðurstöður. Í Atomy er þetta viðfangsefni og samband sögupersóna túlkað á einlægan og mannlegan jafnt átakanlegum en á sama tíma léttan hátt þar sem lífsgleði og húmor sögupersóna fær að skína í gegn.

Umsagnir gesta um myndina

„Myndin sem snertir okkur öll“

- Sigga Kling

„Einstök upplifun að sjá þessa mynd Atomy. Sorg og gleði, einlægni og virðing, líf og fjör. Hvet fólk eindregið til að sjá myndina.“
– Guðrún Ágústdóttir 

„A wonderful film with so many different layers of sensitivity.“
– Vera Wonder Sölvadóttir

„Veitir áhugaverða innsýn inn í erfitt viðfangsefni sem eru manni framandi. Mæli með fyrir þá sem vilja víkka sjóndeildarhringinn!“
– Ólafur Hlynsson

„Þetta er áhugaverð mynd og gaman að sjá hversu mikla hreyfigetu var hægt að kalla fram. Einnig áhugavert hvað kom fram í lokin. Myndin fær 5 stjörnur frá mér“

- Guðrún Jóhanna Benediktsdóttir

„Frábær heimildarmynd og mögnuð saga. Mæli hiklaust með!“
– Arnór Gíslason

„Heillandi mynd um einstakt ferðalag ungs manns í leit að betra lífi. Boðskapur myndarinnar er hugrekki, að gefast ekki upp, heldur halda áfram að elta drauma sína.“

- Hrönn Marínósdóttir

„Einstök mynd um seiglu og sigur andans á efninu“

- Andrea Jónsdóttir

Myndir frá frumsýningu Atomy: