Mary Flora Bell fæddist þann 26. maí árið 1957 í Newcastle upon Tyne í Englandi. Mary er enn lifandi í dag þó engin kona með þessu nafni finnist á gjörvöllu Stóra-Bretlandi. Mary gengur nefnilega undir ýmsum dulnefnum til að vernda sig, dóttur sína og eitt barnabarn. Ástæðan? Jú, þegar Mary var aðeins ellefu ára gömul kyrkti hún tvö börn til dauða og var hent í steininn. Málið er enn eitt það óhugnalegasta sem komið hefur upp í Bretlandi.

Seld í vændi fjögurra ára

Eins og áður segir kom Mary í heiminn árið 1957. Það má segja að hún hafi fæðst inn í hræðilegar aðstæður. Móðir hennar, Betty McCrickett, var vændiskona og hvarf oft löngum stundum af heimilinu til að vinna í Glasgow. Betty var sautján ára gömul þegar hún eignaðist Mary en það hefur aldrei verið staðfest hver faðir hennar var. Kærasti móður hennar gekk henni í föðurstað, en það var glæpamaðurinn Billy Bell, sem var lítt skárri en móðirin.

Mary átti við andleg vandamál að stríða.

Æskuár Mary voru lituð af ofbeldi og óreglu. Fjölmargir ættingjar Betty hafa fullyrt að Betty hafi oftar en einu sinni reynt að koma dóttur sinni fyrir kattarnef. Mary „datt“ einu sinni út um glugga og töldu einhverjir ættingjar að henni hefði verið hrint. Við fallið varð Mary fyrir óafturkræfum heilaskaða sem hafði til að mynda áhrif á hvernig hún tekur ákvarðanir og hreyfigetu. Þá gleypti hún „óvart“ svefntöflur þegar hún var smábarn, en vitni utan fjölskyldunnar sagði að Betty hefði gefið barninu töflurnar og dulbúið þær sem sælgæti. Þá sagði Mary sjálf að hún hefði oft verið kynferðislega misnotuð sem barn og að móðir hennar hafi neytt hana frá fjögurra ára aldri til að vera með fullorðnum mönnum gegn gjaldi, sem rann að sjálfsögðu óskipt í vasa móðurinnar.

Montaði sig af morðinu

Það var svo daginn fyrir ellefu ára afmælið, þann 25. maí árið 1968, sem Mary kyrkti hinn fjögurra ára gamla Martin Brown í yfirgefnu húsi í Scotswood í Newcastle upon Tyne. Talið var að hún hefði verið ein að verki en hún og vinkona hennar, hin þrettán ára Norma Joyce, brustust stuttu síðar inn í barnaheimili og skildu eftir miða þar sem þær lýstu sig ábyrga fyrir morðinu. Lögreglan tók ekkert mark á orðsendingunni og hélt að um grín væri að ræða. Lögregluþjónar fundu verkjatöflur í húsinu og töldu að drengurinn hefði einfaldlega tekið of stóran skammt af þeim, með þeim afleiðingum að hann lést.

Næstu daga fóru fleiri og fleiri á svæðinu að tala um andlát drengsins Martin Brown. Þá byrjaði Mary að gorta sig af því að hafa drepið hann, en að sögn þeirra sem þekktu til hennar var það ekki óvanalegt þegar að hún átti í hlut og því tók enginn mark á því. Þar til annað fórnarlambið fannst.

Síðar sama ár, nánar tiltekið þann 31. júlí, kyrktu stúlkurnar tvær hinn þriggja ára Brian Howe á svipuðum slóðum. Samkvæmt lögregluskýrslum sneri Mary aftur á morðvettvanginn, áður en lögreglan fann líkið, og skar M á kvið drengsins, klippti af honum hár og afskræmdi kynfæri hans með skærum.

Mikil fjölmiðlaathygli

Stúlkurnar tvær voru báðar ákærðar fyrir morðin tvö en þann 17. desember árið 1968 var Norma Joyce sýknuð en Mary fundin sek. Mary var talin siðblind og að hún gæti ógnað lífi annarra barna.

Mary á unglingsárunum.

Eftir dóminn hlaut Mary mikla athygli fjölmiðla. Móðir hennar seldi ýmsar sögur af dóttur sinni og gaf meira að segja blaðamönnum minnispunkta og bréf sem hún hafði falsað sem bréf frá dóttur sinni. Mary losnaði úr fangelsi árið 1980 eftir tólf ára fangelsisvist. Hún fékk þá nýtt nafn og auðkenni sem gerði henni kleyft að hefja nýtt líf. Hún eignaðist dóttur þann 25. maí árið 1984 og fengu þær að lifa hamingjusamlegu lífi án þess að dóttirin vissi nokkuð um fortíð móður sinnar þar til árið 1998 þegar að blaðamenn komust á snoðir um hvar Mary átti heima. Óvíst er hvar Mary og dóttir hennar búa núna, en árið 2009 eignaðist Mary sitt fyrsta barnabarn. Þær þrjár, amman, mamman og dóttirin, munu njóta nafnleyndar í bresku réttarkerfi til dauðadags, þökk sé sérstökum úrskurði sem kenndur er við Mary Bell í Bretlandi og tryggir að fangar og afkvæmi þeirra njóti nafnleyndar, einnig eftir átján ára aldur.