Það eru margir sem taka sig til á aðventunni og blása til allsherjar jólahreingerningar. Þá er um að gera að grynnka á draslinu á heimilinu og henda tilganglausum hlutum. Hér fyrir neðan eru átján hlutir á heimilinu sem þú þarft svo innilega ekki á að halda.

Gamlar snúrur

Leiðinlegt að segja það en nei, þú átt aldrei (og ég meina ALDREI) eftir að nota þessar snúrur aftur. Þú ert örugglega með heila skúffu sem er full af þessum snúrum og veist pottþétt ekki hvað helmingurinn af þeim gerir þannig að hentu þeim bara öllum. Það er algjörlega tilgangslaust að safna þessu endalaust.

Gömul dagatöl

Af hverju að geyma gömul dagatöl? Það er galið og þú veist það! Þú átt aldrei eftir að þurfa á þeim að halda aftur. Horfðu til framtíðar og hentu fortíðinni.

Leiðbeiningar og handbækur

Ókei, þú settir saman hillu og fannst vissara að geyma leiðbeiningarnar. En hvað með þegar að tíu ár eru liðin og þú hefur geymt allar leiðbeiningar og handbækur með gjörsamlega öllu sem þú hefur keypt? Það er orðinn ágætis stafli sem á heima í ruslinu. Ef þú lendir í vandræðum þá er internetið vinur þinn – þessar handbækur eru allar þar.

Gömul sólarvörn

Ef þú mannst ekki hvenær þú keyptir sólarvörnina þá ættir þú að henda henni því eldgamlar sólarvarnir gera ekkert gagn.

Eldgamlar kvittanir

Hugsanlega var einu sinni góð ástæða fyrir því að geyma þessar kvittanir en sá tími er liðinn. Út með þær!

Borðspil sem ekki eru spiluð

Þau taka ofboðslega mikið pláss og miklu nær að koma þeim í hendur sem vilja nota þau. Gefðu einhverjum í kringum þig spilin eða gefðu þau í góðgerðarstarfsemi.

Sóló sokkar

Hinn endalausi hausverkur um hvað verður um sokkana! Þú átt örugglega fullt af einstæðum sokkum heima hjá þér og bíður eftir að finna betri helminginn. Það er því miður ekki að fara að gerast. Hentu því öllum einstæðingum.

DVD myndir

DVD-hulstur taka rosalega mikið pláss og því er best að koma þeim fyrir kattarnef. Það er hvort eð er hægt að streyma þessu öllu. Auðvitað þykir sumum vænt um hulstrin sín og gæti fundist þetta erfitt. Þá er um að gera að byrja á því að koma þeim fyrir í kassa í geymslunni og athuga hvort þú saknar þeirra.

Bækur

Gefðu einhverjum bækurnar sem þú ert búin/n að lesa því þú munt örugglega ekki lesa margar þeirra aftur.

Lyf

Við geymum oft alls konar lyf, jafnvel í fjölmörg ár, en málið er að lyf missa virkni sína eftir ákveðinn tíma. Farðu í gegnum lyfjabúrið og hentu öllu sem er útrunnið.

Geisladiskasafnið

Sama lögmál og með DVD-myndirnar. Taktu þér tíma og settu eftirlætistónlistina þína á harðan disk áður en þú losar þig við safnið.

Ílát án loks

Hvað verður eiginlega um þessi lok? Hvað sem því líður þá er loklaust ílát tilgangslaust ílát. Í ruslið með það.

Gamlar snyrtivörur

Þú getur fengið leiðinlegar sýkingar við að nota gamlar snyrtivörur og þess vegna mæla sérfræðingar með að henda snyrtivörum eftir þriggja mánaða notkun.

Ónýt batterí

Losaðu þig við batterí sem virka ekki. Best er að safna þeim saman og fara með þau í endurvinnslu.

Tímarit

Losaðu þig við stafla af gömlum tímaritum sem enginn skoðar og mun aldrei skoða aftur. Kannski vill leikskólinn eða skóli staflann til að nota í föndur?

Gamlir pennar

Taktu þér tíu mínútur á meðan þú horfir á fréttirnar og farðu í gegnum alla pennana. Það er bara skrýtið að geyma penna sem virka ekki.

Málningarleifar

Þú hefur geymt málningu í fjölda ára ef ske kynni að þú þyrfti að bletta eitthvað á heimilinu. Málning getur hins vegar breytt um lit með tímanum og því algjör óþarfi að vera að geyma margar málningardollur.

Tækifæriskort

Kort hafa mikið tilfininngalegt gildi en kannski er kominn tími á að fara í gegnum þau og henda þeim sem skipta litlu sem engu máli.