Það var ljóst í gær að Demókratinn Joe Biden verður 46. forseti Bandaríkjanna eftir harða baráttu við sitjandi forseta, Donald Trump.

Með þessu verður hann elsti maður til að vera kosinn forseti Bandaríkjanna en varaforsetaefni hans, Kamala Harris, verður enn fremur fyrsti kvenkyns varaforseti Bandaríkjanna og fyrsta svarta konan í embættinu.

Tímaritið Us Weekly sló á þráðinn til Biden og fékk upp úr honum 25 staðreyndir um hann sem almenningur vissi hugsanlega ekki.

1. Ég stamaði sem barn og komst yfir það með því að lesa og fara með írsk ljóð.

2. Þegar ég var að vaxa úr grasi voru pólitísk tengsl fjölskyldu minnar ekki einu sinni nóg til að þau væru í skólastjórninni – Ég var fyrsti þingmaðurinn sem ég þekkti.

Ungur Joe Biden.

3. Eitt af uppáhaldsstörfunum mínum var að vinna í almenningslaug í Wilmington í Delaware.

4. Ég var kosinn í öldungadeild Bandaríkjaþings þegar ég var 29 ára gamall en varð þrítugur, sem er tilskilinn aldur fyrir þingmann öldungadeildar samkvæmt stjórnarskrá, áður en ég var svarinn í embætti.

5. Ég elska körfubolta og fótbolta og var einn af aðalmarkaskorurunum í ósigraða fótboltaliðinu á lokaári mínu í háskóla.

6. Ef ég hefði valið mér annan starfsfeil – og hefði haft hæfileikana – hefði ég orðið arkitekt.

7. Ég elska Corvettur og á enn Corvettu árgerð 1967 sem faðir minn gaf mér í brúðargjöf. [Biden gekk að eiga Neilia Hunter árið 1966 en hún lést í bílslysi árið 1972 ásamt eins árs gamalli dóttur þeirra, Amy.]

8. Eitt af stærstu afrekum mínum í öldungadeildinni var að skrifa og ná í gegn lögum um ofbeldi gegn konum.

9. Sumir af nánustu vinum mínum í öldungadeildinni hafa verið Repúblikanar – fólk eins og Bob Dole og John McCain.

10. í forystu Demókrata í löggjafarnefnd hef ég haft umsjón með fleiri tilnefningum til hæstaréttar en nokkur önnur núlifandi manneskja.

11. Helsti löstur minn er ís með súkkulaðibitum.

12. Eiginkona mín, Jill er Philadelphia-stelpa og grjótharður Flyers-aðdáandi. [Biden gekk að eiga hana árið 1977.]

13. Jill og ég eigum þýskan fjárhund sem heitir Champ.

14. Ég ber talnaband um úlnliðinn, það sama og Beau, sonur minn, bar daginn sem hann lést. [Beau fæddist árið 1969 en lést áirð 2015 úr heilakrabbameini.]

15. Ég hef haft eina reglu í veru minni í öldungadeildinni: Ég trufla hvaða fund sem er, jafnvel með forsetanum, ef börnin mín eða barnabörn hringja.

16. Ég hef lagt aðaláherslu á utanríkismál allan starfsferil minn og hef flogið tæplega 2 milljónir kílómetra í forsetaflugvélinni Air Force 2 síðan í varaforsetatíð minni.

17. Ég var ekki aðeins í þjónustu forsetans [Barack Obama], við vorum einnig nánir vinir, sem og fjölskyldur okkar. Börnin hans og barnabörnin mín eru bestu vinir.

Obama og Biden.

18. Ég er alltaf með Ray Ban Aviator sólgleraugu á mér og hef borið slík gleraugu síðan ég var strandvörður á sjöunda áratug síðustu aldar.

19. Ég elska að fara í ræktina og reyni að gera það reglulega.

20. Yngri systir mín, Valerie, hefur alltaf verið kosningastjórinn minn.

21. Faðir minn sagði að við þyrftum að standa upp í hárinu á verstu syndinni: valdníðslu. Ég hef tileinkað mér þau heilræði á ferlinum.

22. Ég elska að hitta börn þegar ég er á kosningaferðalagi. Það bjargar deginum mínum!

23. Uppáhaldsdrykkurinn minn er appelsínugulur Gatorade.

24. Uppáhaldsmaturinn minn er pasta.

25. Stærsta afrekið mitt er fjölskyldan mín. Jill hefur kennt í ríkisreknum háskóla í fullu starfi á meðan ég hef verið í embætti. Dóttir mín Ashley [34 ára] er með meistaragráðu í félagsráðgjöf og stýrir óhagnaðadrifnu samtökum um refsirétt í Delaware. Sonur minn Hunter [46 ára] er lögfræðingur og stýrir World Food Program USA. Sonur minn Beau var dómsmálaráðherra í Delaware og verðlaunaður uppgjafahermaður.