Robert Carter, 29 ára maður frá Ohio í Bandaríkjunum, var aðeins tólf ára gamall þegar hann var vistaður á fósturheimili og slitinn frá systkinum sínum átta. Þessi viðskilnaður hafði mikil áhrif á Carter og því greip hann tækifærið þegar honum bauðst að sameina hóp fimm systkina.

Carter var búinn að vera fósturfaðir þriggja drengja siðan í desember árið 2018 og tók nýlega skrefið og varð fósturfaðir systra þeirra tveggja. Hann er því orðinn fimm barna faðir því hann vildi ekki að systkinahópurinn myndi upplifa það sem hann gekk í gegnum í uppvextinum. Raunar gekk Carter skrefinu lengra og ættleiddi öll börnin fimm til að tryggja að þau gætu alist upp saman.

„Ég get ekki lýst því með orðum hvaða þýðingu þetta hefur,“ segir Carter í samtali við tímaritið People. „Það er fallegt að fylgjast með þeim vaxa úr grasi saman og búa til minningar því þau eru saman og hafa ávallt einhvern til að hjálpa þeim að muna eftir fortíðinni.“

Stundin þegar að ættleiðingin gekk í gegn.

Þunglyndur í mörg ár

Þegar að Carter var yngri var hann sá þriðji elsti af níu systkinum. Hann man það vel hvernig tilfinning það var að vera slitinn frá systkinum sínum.

„Ég var ímynd foreldris. Ég var sá sem reyndi að fæða systkini mín og fór út til að leita að mat. Þegar við vorum sett í fóstur vissi ég ekkert hvar þau [systkinin] voru eða hvort væri verið að hugsa um þau. Það olli mér þunglyndi í mörg ár.“

Þessar minningar ollu því að Carter lagði mikið á sig að finna systur drengjanna þriggja sem hann var með í fóstri og sameinaði hópinn í júní í fyrra. Þá höfðu þau verið aðskilin í hálft ár.

„Strákarnir mínir töluðu aldrei um móður sína, þeir töluðu aldrei um föður sinn, bara systur sínar, þannig að ég vissi að ég þyrfti að láta þetta gerast,“ segir Carter og rifjar upp stundina þegar að hópurinn hittist á ný.

„Við grétum allan tímann og þá hugsaði ég: Ókei, ég þarf að ættleiða þau og halda þeim saman.“

Önnur ættleiðing gekk ekki

Barnahópur Carters.

Það var þann 3. janúar síðastliðinn sem Carter tók systurnar í fóstur og þann 30. október síðastliðinn ættleiddi hann systkinahópinn eftir sex mánaða langt ættleiðingarferli. Þegar að ættleiðingin var staðfest fyrir dómstólum klæddust Carter og systkinahópurinn í stíl – öll í svörtu og rauðu. Þessi stund hafði sérstaka þýðingu fyrir Carter því fyrir nokkrum árum reyndi hann að ættleiða tvö fósturbörn sem höfðu dvalið með honum í tæp tvö ár en það gekk ekki.

„Ég var harmi lostinn en ég þurfti að halda áfram,“ segir hann. „Þannig að þar til við mættum fyrir dómstóla hugsaði ég: Hvað ef eitthvað gerist? Hvað fæ ég að heyra? Ég er ekki mjög tilfinninganæmur maður og ég sýni ekki tilfinningar. Eftir að þetta gekk í gegn fylltist ég létti. Ég vaknaði næsta dag í algjöru jafnvægi. Þetta er nýtt upphaf fyrir okkur öll.“

Meiri læti á heimilinu

Carter segir að eina breytingin á heimilishaldinu eftir ættleiðinguna sé að það séu miklu meiri læti á heimilinu.

„Ég vil frekar hafa læti og að vita af þeim saman en að hafa þau ekki, hafa frið og ró og vita af þeim sundruðum. Þetta er þess virði.“

Börnin eru á aldrinum fjögurra til tíu ára. Bræðurnir eru Robert, níu ára, Giovanni, fimm ára og Kiontae, fjögurra ára og systurnar eru Marionna, tíu ára og Makayla, sjö ára. Carter hlakkar til að fylgjast með þeim vaxa og dafna.

Gaman að stríða pabba.

„Kiontae er orkumikið barn. Hann er barnið sem efast um allt. Giovanni er ljúfur. Hann er gömul sál. Hann hjúfrar sig að mér og vill hjálpa með allt. Makayla er ljúf en líka flippuð. Hún elskar að dansa og elskar allt stelpulegt. Robert er fyrir tölvuleiki. Hann er mjög gáfaður og langar til að búa til tölvuleiki þegar hann verður eldri. Hann er mjög ljúfur líka,“ segir Carter. Hann sér sjálfan sig í elsta barninu, Marionna. Hann segir hana mjög „feimna“ en jafnframt að hún stjórni hópnum.

„Hana langar að verða fyrirsæta, hágreiðslukona eða hjúkrunarfræðingur. Hún er ímynd móður fyrir þessi börn en ég leyfi henni ekki einu sinni að hella morgunkorni í skál núna því hún ber ekki ábyrgð á því. Hún hefur gert það svo lengi en hún hefði aldrei átt að vera sett í þá stöðu til að byrja með.“

Börnin hafa breytt mér

Carter segir að börnin hafi haft jákvæð áhrif á sig.

„Ég hef ekki fundið fyrir þunglyndi eftir að ég fékk þessi börn. Þau hafa hjálpað mér og breytt mér á svo marga vegu. Marionna kom inn til mín upp úr þurru um daginn og þakkaði mér og faðmaði mig en hljóp svo í burtu því hún er svo feimin. Á slíkum stundum er ég þakklátur fyrir að vera það heilbrigður að geta forðað þessum börnum frá vandræðum og tryggt öryggi þeirra,“ segir hann og heldur áfram.

„Þau gefa mér tilgang. Það er ekki hægt að verðleggja það að ég á mína eigin fjölskyldu það sem eftir lifir og ég fæ að fylgjast með þeim vaxa og dafna og sjá hve langt þau ná.“