Í skugga heimsfaraldurs COVID-19 höfum við orðið meðvitaðri um mikilvægi hreinlætis. Hins vegar gleymist oft að þrífa nokkra staði á heimilinu sem geta borið með sér alls kyns bakteríur.

Dyrahúnar

Auðvitað eru dyrahúnar skítugir, því það snerta þá allir, en hve oft þrífurðu þá? Það er leikur einn að þrífa þá og best að þurrka af þeim rykið með þurrum klút, síðan rökum klút og jafnvel spreyja spritti á þá og leyfa því að sitja á húninum í nokkrar mínútur áður en hann er snertur.

Ljósarofar

Annar augljós staður þar sem óhreinindi safnast saman, en margir gleyma algjörlega að þrífa ljósarofa. Það er auðveldast að þrífa þá með blautklútum.

Handrið

Þeir sem eru með handrið á heimili sínu ættu að þvo það vel og vandlega með hreinsiefni að eigin vali, helst tvisvar í viku. Svo er gott að spreyja smá spritti á handriðið.

Blöndunartæki

Maður snertir ansi margt áður en maður snertir blöndunartækin, sérstaklega í eldhúsinu. Gott er að þrífa blöndunartæki með því hreinsiefni sem þér finnst best og síðan spreyja smá spritti á herlegheitin, líkt og með dyrahúnana.

Fjarstýringar

Þetta er einn óhreinasti hluturinn á heimilinu þínu og það er mikilvægt að þrífa fjarstýringar reglulega. Gott er að þrífa hann með rökum klút. Klúturinn má ekki vera of blautur því þá getur vatnið smogið inn á milli rifanna í fjarstýringunni og valdið skemmdum. Passið að þurrka vel inn á milli hnappanna. Ef mylsna er föst í rifunum er ágætt að nota tannstöngul til að losa hana.

Raftæki

Það er snúið að þrífa raftæki því sum hreinsiefni geta einfaldlega skemmt þau. Passið að lesa leiðbeiningar með tækjunum þar sem yfirleitt er getið um hvernig á að þrífa þau og með hvaða efni.

Höldur

Þetta er líklega það sem þú snertir oftast í eldhúsinu. Góð regla er að strjúka af höldunum um leið og gengið er frá í eldhúsinu. Það er fínt að strjúka af þeim með sápuvatni og þurrka síðan með þurrum klút. Aftur kemur sprittið sterkt inn í lokin.

Ruslatunnur

Það fer alls kyns viðbjóður í ruslatunnur, ekki satt? En oft gleymist að þvo þær. Það er tilvalið að leyfa heitu sápuvatni að liggja í tunnunum og skrúbba þær síðan hraustlega. Munið að þurrka þær vel og vandlega áður en þær eru notaðar.