Það má með sanni segja að heimsbyggðin öll sé meðvitaðri um hreinlæti í skugga kórónuveirufaraldursins COVID-19. Flestir eru vonandi orðnir ansi sleipir í að sápa og spritta hendurnar og þrífa nærumhverfið en það er hins vegar einn hlutur sem gleymist oft í hreingerningum – farsíminn.

Langflestir Íslendingar eiga síma og nota hann daglega. Símar geta verið algjör sýklabæli, en rannsókn sem birt var í læknatímaritinu Germs árið 2017 sýndi fram á að símar geta borið með sér ýmsa vírusa og bakteríur, svo sem E. coli og Streptókokka. Það er hins vegar ekkert ofboðslega flókið að þrífa síma en gott er að gera það að minnsta kosti tvisvar í viku.

1. Takið símann úr hulstrinu, ef hann er í hulstri, og slökkvið á honum.

2. Strjúkið símann með örtrefjatusku. Þetta fjarlægir sýkla, en drepur þá ekki.

3. Sótthreinsið símann og notið efni sem hentar raftækjum. Forðist að úða sótthreinsi í tengi fyrir hleðslutæki eða heyrnatól.

4. Látið símann standa á borði við stofuhita í að minnsta kosti fimm mínútur svo sótthreinsiefnið virki vel.

5. Takið ykkur annan örtrefjaklút í hönd, en ekki þann sama og fjarlægði sýklana. Strjúkið símann vel og vandlega.

6. Hreinsið síðan símahulstrið á sama hátt.