Carbonara er mjög vinsælt á mínu heimili og geggjaður haustmatur. Ég fann þessa uppskrift að auðveldu Carbonara á vefsíðunni Taste of Home, en hér þarf aðeins fimm hráefni og hálftíma.

Tortellini Carbonara

Hráefni:

250 g osta tortellini
8 beikonsneiðar, skornar í bita
1 bolli rjómi
1/2 bolli rifinn parmesan ostur
1/2 bolli fersk steinselja, söxuð

Aðferð:

Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Hellið síðan vatninu af. Steikið beikon á pönnu yfir meðalhita þar til það er stökkt. Takið það af pönnunni og þerrið á pappírsþurrku. Hellið fitunni af pönnunni og setjið rjóma, ost, steinselju og beikon á pönnuna yfir meðalhita. Leyfið þessu að malla í 1-2 mínútur og skellið síðan pastanu saman við og leyfið að malla í 1-2 mínútur í viðbót. Berið strax fram.