„Lady er alls ekki aðeins fyrir konur. Lady er fyrir alla  sem hafa aldur til að drekka áfengi og eru með konum í liði. Hvernig sem þú skilgreinir kyn þitt þá ertu velkomin í hreyfinguna,“ segir hönnuðurinn Þórey Björk Halldórsdóttir, bruggari og eigandi Lady Brewery.

Lady Brewery er skapandi, kvenrekið handverksbrugghús. Erfitt er að tala um Lady Brewery sem fyrirtæki í hefðbundnum skilningi þess orðs, því eins og Þórey segir sjálf þá er þetta fremur hreyfing, jaðrar jafnvel við að vera listrænn gjörningur. Fyrsti bjór Lady Brewery flæddi á krana þann 10. október árið 2017. Þá hafði Þórey bruggað bjór í eldhúsinu heima í níu mánuði; eina meðgöngu eða svo, ásamt metnaðarfullu og skapandi fólki sem hún hefur raðað í kringum sig og brugghúsið. Ekki leið á löngu áður en Lady Brewery vakti athygli bjórunnenda og hlaut einkennisbjór brugghússins, First Lady, önnur verðlaun fyrir vöru ársins á Hönnunarverðlaunum Reykjavík Grapevine í fyrra.

Einkennisbjór Lady, First Lady.

Setja bjór í annað samhengi

Þórey og aðrir starfsmenn Lady Brewery koma úr hönnunar-, myndlistar- og matargeiranum og nálgast bjórgerð sem upplifun og hönnunarvöru með fagurfræði og eðal hráefni að vopni. Boðskapur Lady Brewery er einfaldlega sá að bjór sé ekki aðeins fyrir karla, eins og hann hefur verið markaðssettur í áranna rás.

„Klárlega hefur bjór verið markaðsettur fyrir karlmenn frekar en konur og er það mikill misskilningur að konur njóti ekki bjórs eins og karlar. Við heyrum oft í konum sem tala einmitt um það að það hafi vantað þennan vettvang og rödd fyrir konur til að eiga sína skoðun á bjór. Við höfum fagnað því að bjór er fyrir alla en ýtum að sjálfsögðu undir feminisma í bjór,“ segir Þórey og bætir við að tilvist Lady Brewery sé afar mikilvæg í bjórflórunni hér heima, sem og alls staðar annars staðar.

„Það er mér og okkur í Lady skylt og huglægt að setja bjór í annað samhengi. Bjór er búinn að stýrast of lengi af karllægri hugsun og mér finnst í svona frammsæknu „fyrirtæki“ eins og Ísland er að þá verði að vera til ein deild sem talar fyrir konum í bjór.“

Rannsókn á íslenskri náttúru í bjórgerð

Kvenrekna brugghúsið hefur bryddað upp á árstíðarbundnum bjór út frá óhefðbundnari árstíðum eins og Góunni, Sjómannadeginum, áramótum og nýjum tunglhring. Lady Brewery hefur verið í samstarfi við veitingastaðinn ÓX, Hönnunarmars, Nordic angan, Wild Caught Found, Borðhald, Von Mathús og Listahátíð í Reykjavík og er mikið lagt í hráefnin í bjórum brugghússins.

Sigríður Ásgeirsdóttir og Þórey, en Sigríður er sölu- og samskiptafulltrúi Lady.

„Að sækja sér hráefni úr nærumhverfi er heilmikil vinna, það þarf að hafa meira fyrir því og það kostar meira í framleiðslunni. Við sækjum í nærumhverfi okkar, við týnum sjálf náttúrulegar viðbætur, verslum við aðila sem framleiða á Íslandi og reynum að loka framleiðsluhringnum og gefum kornið til nautgripaeldis. Þó að það taki meiri tíma og hugsun þá finnst okkur það bara vera skylda okkar,“ segir Þórey en meðal þess sem er í pípunum hjá Lady Brewery er verkefnið „Rannsókn á íslenskri náttúru í bjórgerð.“

„Íslensk náttúra og hráefni úr nærumhverfi kemur aðallega frá nostalgíu æsku minnar og þeirra sem stofnuðu félagið með mér í byrjun. Jurtir, ber og grænmeti var týnt og ræktað, kræklingur var týndur og fiskur veiddur, allt verkað og borðað, bakað eða sett í drykki, þannig þetta er einfaldlega í DNA Lady. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland geti orðið sjálfbærara og langar mikið til þess að kanna þá leið með bjór, hvort það sé hægt að nýta betur það sem við höfum fyrir framan okkur. Við höfum gert allskyns tilraunir sem hafa reynst misgóðar og erum nú tilbúin til að setja púður og tíma okkar í ítarlegri rannsókn.“

„Þú mátt hafa skoðun“

Nú stendur yfir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund þar sem landsmenn geta stutt fjárhagslega á bak við feminiska brugghúsið. Nokkrir dagar eru eftir af söfnuninni en Þórey vonast til að afla alls tíu þúsund Evrum, rúmri einni og hálfri milljón króna, en fjármagnið mun fara í að standsetja höfuðstöðvar Lady Brewery, koma á laggirnar tilraunaheldhúsi og stofna Leyniklúbb Lady.

„Leyniklúbburinn er skemmtilegur vettvangur þar sem þú getur komið til okkar og fengið að smakka bjóra sem koma ekki á markað, sem sagt prufur úr tilraunaeldhúsinu. Þú mátt hafa skoðun og við fögnum henni!“ segir Þórey og brosir. „Þú kynnist kannski nýju fólki og hlærð mikið.“

Lady Brewery á HönnunarMars í fyrra.

Áskrifendur í leyniklúbbnum fá einnig bjór mánaðarlega, alls kyns gjafir og möguleika á að versla klippikort sem gildir á svokölluðum „growler“ bar. Sá bar verður færanlegur og hægt að fylla á sérstakar „growler“ flöskur – margnota flöskur yfir bjór. Það eru því spennandi tímar framundan hjá Lady Brewery ef fjármagn verður tryggt í gegnum Karolina Fund. En er eitthvað plan B ef söfnunin gengur ekki upp?

Þórey og feminisku flöskurnar.

„Þegar hugmyndir fæðast hjá okkur þá leyfum við þeim að gerast organískt, við ýtum okkur sjaldan út í eitthvað án þess að vera með varaplan. Við höfum fulla trú á þessu, enda eitthvað sem við vorum öll sammála um að væri tryllt skemmtilegt og við myndum öll kaupa okkur aðild að leyniklúbb eða viðburð án þess að blikka. Það er eiginlega kjarninn, ef þig langar í það þá hlýtur öðrum að langa líka!“

New York, Danmörk eða Finnland?

Hvað sem söfnun líður virðist framtíð Lady Brewery vera björt.

„Við hyggjumst færa út kvíarnar og útflutningur er eitt af því sem okkur langar til að gera. New York, Danmörk og Finnland hafa sýnt okkur mikinn áhuga sem er skemmtilega skrýtin blanda af kúltúrum og munum við klárlega byrja nær okkur frekar en fjær í útflutningi. Okkur langar alltaf að vera á Íslandi, okkur langar að tilraunast, hanna og endurhanna, við erum mjög góð í því! Ég sé Lady fara langt og teymið stækkar ört hjá okkur, þannig að á meðan það er gaman þá höldum við áfram.“

Smellið hér ef þið viljið styrkja Lady Brewery.

Fagurfræði og hönnun í fyrirrúmi.