Sumarið er tíminn til að baka úr berjum! Hér er mjög einföld uppskrift að einstaklega fljótlegri köku sem allir ættu að geta töfrað fram á fallegum sumardegi. Þessi bomba er mjög fersk en líka dísæt og dásamleg.

Berjabomba

Hráefni – Berjablanda:

6 bollar blönduð ber (fersk eða frosin)
1/4 bolli sykur
1/4 bolli hveiti
1/4 tsk kanill
safi úr 1/2 sítrónu

Hráefni – Mulningur:

1 bolli haframjöl
1 bolli hveiti
1/2 bolli púðursykur
1/2 bolli sykur
1/4 tsk kanill
smá salt
115 g smjör

Leiðbeiningar

Berjablanda:

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið meðalstórt eldfast mót. Blandið öllum hráefnunum varlega saman og setjið í mótið.

Mulningur:

Blandið haframjöli, hveiti, púðursykri, sykri, kanil og salti vel saman. Brytjið smjörið út í og vinnið það saman við þurrefnin þar til blandan líkist grófu mjöli. Dreifið mulninginum yfir berjablönduna og bakið í um eina klukkustund. Kælið í um það bil korter áður en þið berið berjabombuna fram. Ekki sakar að bjóða upp á hana með vanilluís eða þeyttum rjóma.