Þessa uppskrift fann ég á síðunni Wholesome Recipe Box en þetta er ekta mánudagsmatur, sérstaklega fyrir þá sem vilja sneiða kolvetnin að einhverju leyti úr mataræðinu.

Lágkolvetna fiskur í raspi

Hráefni:

½ bolli hörfræ
½ bolli muldar möndlur (eða möndlumjöl)
¼ bolli rifinn parmesan ostur
½ tsk. sjávarsalt
1 tsk. paprikukrydd
½ tsk. laukkrydd
½ tsk. hvítlaukskrydd
¼ tsk. matarsódi
2 stór egg
450 g hvít fiskiflök, skorin í stóra bita
55 g smjör

Aðferð:

Hitið ofninn í 230°C og setjið stóra pönnu inn í ofninn og leyfið henni að hitna með honum. Blandið öllum þurrefnunum saman í skál. Setjið egg í aðra skál og þeytið vel. Dýfið fiskbitunum í þurrefnablönduna, síðan í eggin og svo aftur í þurrefnablönduna. Takið pönnuna varlega úr ofninum þegar hún er heit og bræðið sirka 3 matskeiðar af smjöri á henni. Steikið fiskinn í 10 mínútur. Snúið bitunum síðan við, bætið restinni af smjörinu saman við og bakið í 5 til 10 mínútur til viðbótar. Leyfið fisknum að hvíla í pönnunni í 5 mínútur áður en hann er borinn fram.