„Ég áttaði mig sem betur snemma á því á meðgöngunni að barnsfaðir minn væri spilafíkill. Þá tók ég ákvörðun að frekar yrði ég einstæð móðir en að basla alla ævi með spilafíkli.“

Þetta segir kona sem á ungan dreng með spilafíkli í grein á vefnum lokum.is. Drengurinn fór mjög ungur reglulega til föður síns sem býr í öðru sveitarfélagi en móðirin. Snemma fór konan, sem vill njóta nafnleyndar og verður hér eftir kölluð Erla, að taka eftir munstri sem benti sterklega til spilafíknar.

„Hann sagðist ætla að koma á ákveðnum tíma á föstudegi að sækja drenginn. Drengurinn beið og beið, stundum fram á kvöld, eftir að pabbi hans myndi koma að sækja hann. Við reyndum að hringja og athuga með hann en alltaf fengum við sama svarið: „Ég þarf aðeins að útrétta“. Ég vissi að hann hékk í spilakössunum í Reykjavík, en þangað þurfti hann að fara í gegn til að komast í bæjarfélagið okkar. Ég vissi að hann var í spilakössunum því ég þekki mann sem er spilafíkill sem sagði mér alltaf frá því þegar hann rakst á barnsföður minn í kössunum. Svo gat ég orðið séð það er hann kom á föstudögum að sækja drenginn hvort hann hefðu unnið i spilakassanum þennan dag eða tapað. Það sást á pirringnum. Ef hann tapaði fóru þeir feðgar bara beint heim. Ef hann vann fóru þeir á KFC og í bíó.“

Einn í myrkrinu

Erla í raun vissi ekki mikið meira um spilafíkn barnsföðursins. Þar til fyrir nokkrum árum þegar að sonur hennar opnaði hana um lífið með föður sínum. Erla segir ljóst að minningar hans höfðu leitað á hann og hvílt þungt á honum.

„Hann sagði mér að hann sofnaði alltaf í bílnum á leiðinni suður og að pabbi hans hafi alltaf stoppað á ákveðnum stað til að spila í spilakössunum. Hann vakti hann til að taka hann með sér inn þar sem hann mátti hanga ungur að árum inni í einhverri sjoppu með bland í poka á meðan pabbi hans spilaði í spilakassanum,“ segir Erla. Ein minningin er sérstaklega hrollvekjandi.

„Í eitt skiptið þegar hann var þriggja ára vaknaði hann í bílstólnum. Það var myrkur úti og hann varð gríðarlega hræddur því enginn var með honum í bílnum. Hann segist hafa horft í kringum sig út um gluggann, sá þessa sjoppu og hugsaði: Pabbi er örugglega inni í sjoppunni. Hann reyndi að losa sig úr beltinu en ekkert gekk. Hann varð hræddari og hræddari og var farinn að gráta yfir því að vera einn og fastur í stólnum sínum. Allt í einu var bankað létt á bílgluggann og hurðin opnuð. Þar stóð maður sem spurði hvað væri að því hann væri búinn að heyra hann gráta í smá tíma og vildi athuga með hann. Það endaði með því að þessi ókunnugi og trausti maður sem betur fer hjálpaði honum úr stólnum og leiddi hann inn í sjoppuna. Þar sá drengurinn pabba sinn standandi fyrir framan einn spilakassann og kallaði á hann. Ókunnugi maðurinn sagði eitthvað við barnsföður minn, sem sonur minn man ekki hvað var, og þá svaraði hann því til að strákurinn væri vanur að sofa út í eitt,“ segir Erla. Hún segir son sinn ekki hafa þorað að segja henni þetta fyrr því hann var hræddur við að hún myndi banna honum að hitta föður sinn. Þá segir hún að það hafi komið nokkrum sinnum fyrir að faðir drengsins hafi farið út í búð að kaupa í matinn þegar að barnið er hjá honum en að þær búðarferðir geti tekið allt upp í fimm klukkustundir. Á meðan situr drengurinn einn heima og bíður.

Á ekkert

Erla segir sambandið milli feðganna gott og að drengurinn vilji alltaf fara til pabba síns. Hún segir barnsföður sinn vera góðan mann. Hann er kominn á sextugsaldur og á ekkert sökum spilafíknar, en hann hefur stundað spilakassana í 25 til 30 ár.

„Hann hefur spilað frá sér íbúðir og ég er handviss um að hann ætti 70 til 80 milljóna skuldlausa eign og skuldlausan bíl í dag hefði hann aldrei snert spilakassa. Í staðinn situr hann í leiguíbúð, með fábrotið innbú af hlutum sem aðrir hafa gefið honum og vinnur dag og nótt í staðinn fyrir að geta notið tímans með börnunum sínum,“ segir hún og heldur áfram.

„Ég er þakklát í dag að hafa fattað það strax er ég kynntist honum að líf með spilafíkli væri ávísun á fátækt og lygi. Drengurinn er meðvitaður í dag um að pabbi hans spili í spilakössum og sé spilafíkill. Drengurinn hefur margoft sagt að hann muni aldrei setja pening í spilakassa því hann vill ekki vera fátækur.“

***

Lokum er árvekniherferð sem hefur það markmið að leiða íslensku þjóðina í allan sannleikann um hve skaðleg fíkn í spilakassa er, sem og að þrýsta á stjórnvöld að loka spilakössum á Íslandi til frambúðar. Herferðin er á vegum SÁS, samtaka áhugafólks um spilafíkn.