Margir muna eflaust eftir kvikmyndinni Hachi: A Dog’s Tale, sem var endurgerð á japönsku myndinni Hachikō Monogatari, og sagði sögu japanska hundsins Hachikō sem beið eftir eiganda sínum í níu ár. Hachikō vissi ekki að eigandi hans væri látinn, en hundurinn drapst loks sjálfur ellefu ára gamall.

Saga eins árs gamla Golden Retriever-tíkurinnar Ping An frá borginni Qidong í Jiangsu-héraði í Kína minnir mikið á sögu Hachikō, en Ping An hefur leitað í heimspressuna eftir að hún lagði á sig ómælt erfiði til að finna eiganda sinn.

Duglegur hvutti.

Eigandi Ping An kom henni fyrir í pössun hjá vini sínum því eigandinn þurfti að taka heimilið í gegn og vildi ekki hafa tíkina á svæðinu. Heimili vinarins var í tveggja klukkutíma fjarlægð frá heimili Ping An og átti tíkin að vera vistuð þar tímabundið.

Þegar að fjórir mánuðir af dvölinni höfðu liðið fékk Ping An heimþrá og nennti ekki að bíða lengur eftir eiganda sínum. Hún lét sig því hverfa. Fyrst um sinn hélt eigandinn að Ping An hefði hlaupið á brott en tíkin fór í raun í mikla óvissuferð í leit sinni að eiganda sínum.

Ping An var vannærð og slösuð eftir svaðilförina.

Ping An labbaði um hundrað kílómetra á fjórtán daga tímabili til að komast aftur á heimili sitt. Þegar hún komst loksins til heimaborgarinnar Qidong fundu vegfarendur hana úti á götu. Ping An haltraði og það blæddi úr loppum hennar. Þá var hún leið á að líta og vannærð. Þeir sem fundu Ping An ákváðu að setja inn auglýsingu um tíkina á kínverska skilaboðaforritið WeChat. Ekki leið á löngu þar til eigandinn sá auglýsinguna og Ping An komst heim.

Ping An var send til aðhlynningar hjá dýralækni og hefur að fullu náð sér eftir svaðilförina. Meðfylgjandi myndband af endurfundunum hefur vakið mikla athygli en í því heyrist eigandinn hrósa Ping An og fullvissa hana um að hann muni aldrei yfirgefa hana.