Atburðir síðasta sólarhring eða svo í Bandaríkjunum hafa vakið óhug um heimsbyggðina alla. Á miðvikudag, aðeins tveimur vikum áður en Donald Trump mun stíga úr forsetastólnum vestan hafs, kom þing saman til að staðfesta atkvæði kjörmanna í bandarísku forsetakosningunum og staðfesta kjör Joe Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna.

Við þetta sköpuðust miklar óeirðir við þinghús Bandaríkjaþings, Capitola Hill, í Washington. Æstur múgur, sem er hliðhollur Trump, braut sér leið inn í þinghúsið, að svo virðist með lítilli mótstöðu frá lögreglu. Hefur lögreglan verið gagnrýnd fyrir að ganga ekki hart fram gegn múgnum, líkt og var gert í Black Lives Matter mótmælunum.

Nú þegar þetta er skrifað hafa fjórir látist í óeirðunum, en múgurinn braust inn í skrifstofur þingmanna og hafa margir úr hópnum birt myndir af sér á samfélagsmiðlum þar sem þeir virðast stela sögufrægum munum úr þinghúsinu, sem og einkamunum þingmanna.

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, hefur fordæmt þessa árás á bandarískt lýðræði á meðan Trump flutti ávarp þar sem hann sagði kosningunum stolið af sér og sínum stuðningsmönnum en bætti jafnframt við:

„Farið heim, við elskum ykkur, þið eruð einstök.“

Nú ganga á Twitter tvær myndir sem eiga að túlka forsetatíð Donald Trump í hnotskurn. Önnur er tekin þegar hann tók við forsetaembættinu, hin í óeirðunum. Dæmi nú hver fyrir sig: