Árið byrjar frekar nöturlega og mörg hundruð milljónir manns víðs vegar um heiminn hafa þurft að umbreyta lífi sínu, kveðja ástvini skyndilega og sætta sig við einhvers konar form af útgöngu- eða samkomubanni.

Kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla hefur tekið á sig stórt högg og því óvíst hvort að haustið beri með sér gullmola á skjánum. Því ber að fagna því sem hefur nú þegar komið út á árinu 2020, en fjölmargir stórkostlegir þættir hafa litið dagsins ljós – þættir sem margir hverjir eru tilvaldir til hámhorfs. Hér er brot af því besta.

Mrs. America

Frumsýningardagur: 15. apríl
Efnisveita: FX á Hulu
Aðalhlutverk: Cate Blanchett, Rose Byrne, Tracey Ullman og Uzo Aduba

Hér er um að ræða sögu nútímafeminisma í Bandaríkjunum og baráttunni sem háð var til að staðfesta viðauka um jafnrétti í stjórnarskrána á áttunda áratug síðustu aldar, en sú barátta er raunar háð enn þann dag í dag. Áhugaverð þáttaröð sem mun eflaust raka af sér verðlaunum, en í henni er ýmsum hliðum málsins velt upp, sem og spekúleringum um hlutverk kvenmanna án þess að draga af því neinar ályktanir eða niðurstöðu. Ekki fullkomið sjónvarpsverk en fjári gott.

Run

Frumsýningardagur: 12. apríl
Efnisveita: HBO
Aðalhlutverk: Merritt Wever, Domhnall Glesson og Phoebe Waller-Bridge

Eina sem við vitum í byrjun er að aðalpersónurnar tvær eru bálskotnar í hvorri annarri. Smátt og smátt fáum við síðan að vita meira, en um er að ræða seríu sem er stútfull af sótsvörtum húmor. Turtildúfurnar tvær urðu ástfangnar í háskóla en fimmtán árum seinna ákveða þær að stinga allt og alla af og reyna að finna unglingsástina aftur. Hér er nóg af beygjum og sveigjum, óþægilegum augnablikum og á tímum finnst manni maður vera hluti af þessu skringilega ástarsambandi.

Tiger King: Murder, Mayhem and Madness

Frumsýningardagur: 20. mars
Efnisveita: Netflix
Aðalpersónur: Joe Exotic, Carole Baskin, Bhagavan Antle, Rick Kirkham, Jeff Lowe

Það þarf ekki að fjölyrða um velgengni heimildaráttanna um tígrisdýrakónginn en þeir eru nú orðnir einir vinsælustu þættir sem Netflix hefur framleitt frá upphafi efnisveitunnar. Hér er best að segja sem minnst en fyrir þá sem ekki hafa séð þessa undarlegu þætti fylgjast þeir með samfélagi Bandaríkjamanna sem halda framandi dýr líkt og tígrisdýr, fjallaljón og fíla. Inn í líf þeirra fléttast samsæriskenningar um morð, svartamarkaðsbrask með stórhættuleg dýr og fjölkvæni, svo fátt eitt sé nefnt.

The Plot Against America

Frumsýningardagur: 16. mars
Efnisveita: HBO
Aðalhlutverk: Winona Ryder, Anthony Boyle, Zoe Kazan, Morgan Spector, John Turturro

Þáttaröðin er byggð á samfnefndri bók eftir rithöfundinn Philip Roth sem kom út árið 2004. Hér er kynnt öðruvísi útgáfa af bandarískri sögu þar sem flugmaðurinn Charles Lindbergh hafði betur gegn Franklin D. Roosevelt í forsetakosningunum árið 1949 og í kjölfarið ríkti fasismi í Bandaríkjunum. Miklar Trump-vísanir má finna í þáttaröðinni og fer um marga ef þeir horfa upp á svo dökka framtíðarsýn.

ZeroZeroZero

Frumsýningardagur: 6. mars
Efnisveita: Amazon Prime
Aðalhlutverk: Andrea Riseborough, Dana DeHaan, Giuseppe De Domenico, Gabriel Byrne, Adriano Chiaramida og Harold Torres.

Einhverjir hafa sagt að ZeroZeroZero sé svar Amazon við Netflix-seríunni Narcos. Í ZeroZeroZero er fylgst með kókaínviðskiptum á milli mexíkóskra, bandarískra og ítalskra glæpagengja og má með sanni segja að þetta sé ein vandaðasta og ofbeldisfyllsta serían sem Amazon Prime hefur sýnt hingað til.

Devs

Frumsýningardagur: 5. mars
Efnisveita: Hulu
Aðalhlutverk: Sonoya Mizuno, Nick Offerman, Jin Ha, Zach Grenier og Cailee Spaeny

Hér er um að ræða frumraun leikstjórans Alex Garland í sjónvarpi, en hann er hvað þekktastur fyrir að leikstýra kvikmyndunum Ex Machina og Annihilation sem og að taka þátt í handritsskrifum á 28 Days Later og Dredd. Devs er heimspekilegur vísindaskáldskapur sem segir sögu Lily Chan, ungs hugbúnaðarverkfræðings sem rannsakar leynilega þróunardeild fyrirtækisins sem hún vinnur hjá. Deildinni er stýrt af undarlegum fýr sem heitir Forest en Lily er handviss að deildin beri ábyrgð á morðinu á kærasta sínum.

Dispatches from Elsewhere

Frumsýningardagur: 1. mars
Efnisveita: AMC
Aðalhlutverk: Jason Segel, Andre Benjamin, Eve Lindley, Richard E. Grant og Sally Field

How I Met Your Mother-stjarnan Jason Segel er maðurinn á bak við þessa dramagaman þáttaröð og leikur einnig aðalhlutverkið. Segel leikur Peter, einmana mann sem svarar dreifibréf og flækist í undarlegan heim þar sem veröld hans er kollvarpað. Kannski er þetta leikur, kannski er þetta samsæri, kannski er þetta eitthvað en kannski ekki neitt. Virkilega áhugaverð og undarleg sería sem spilar á allan tilfinningaskalann.

High Fidelity

Frumsýningardagur: 14. febrúar
Efnisveita: Hulu
Aðalhlutverk: Zoë Kravitz, Jake Lacy, Da’Vine Joy Randolph og David H. Holmes

Einhverjir hafa lesið samnefnda bók eftir Nick Hornby og sumir hafa jafnvel séð bíómyndina frá árinu 2000 þar sem John Cusak fór á kostum. Nú er hægt að horfa á sjónvarpsþáttaseríuna sem byggð er á skáldsögunni. Þrusugóð sería þó hér sé mikil endurvinnsla á ferð.

Mythic Quest: Raven’s Banquet

Frumsýningardagur: 7. febrúar
Efnisveita: Apple TV+
Aðalhlutverk: Rob McElhenney, Ashly Burch, Jessie Ennis og Imani Hakim

It’s Always Sunny in Philadelphia-stjarnan Rob McElhenney leikur egósentrískan stjórnanda hjá tölvuleikjafyrirtæki sem sérhæfir sig í leikjum sem margir spilarar geta spilað í einu. Fyrirtækið er við það að setja á markað nýja vöru en serían hyllir leikjaiðnaðinn án þess að gera grín að honum beint. Áhugaverð og afar skemmtileg sería, en McElhenney skapaði seríuna ásamt It’s Always Sunny in Philadelphia-félaga sínum Charlie Day og Megan Ganz, fyrrverandi aðstoðarritstjóra The Onion.

The Circle

Frumsýningardagur: 1. janúar
Efnisveita: Netflix

Um er að ræða raunveruleikaþátt sem hefur slegið í gegn víðs vegar um heiminn. Í þættinum er fylgst með keppendum sem reyna að byggja upp ímynd á samfélagsmiðlum til að ganga í augun á öðrum, en ýmsar óvæntar uppákomur gera þættina afar skemmtilega.

Party of Five

Frumsýningardagur: 8. janúar
Efnisveita: Freeform, Hulu
Aðalhlutverk: Brandon Larracuente, Niko Guardado, Emily Tosta og Elle Paris Legaspi

Það var svo sem enginn að biðja um endurgerð á næntís dramanu Party of Five en endurgerðin er samt skrami góð. Nú er ekki um að ræða hvíta fjölskyldu sem berst í böggum eftir að foreldrarnir látast í bílslysi heldur fjölskyldu af suður-amerískum uppruna sem verður að ná endum saman þegar að foreldrunum er vísað úr landi. Takið fram vasaklútana!

Cheer

Frumsýningardagur: 8. janúar
Efnisveita: Netflix
Aðalpersónur: Monica Aldama, Gabi Butler, Jerry Harris og Morgan Simianer

Heimildarþáttateymið á bak við Last Chance U býður nú upp á aðra heimildarþætti þar sem kafað er í besta klappstýruverkefnið í Bandaríkjunum, nánar til tekið í Texas. Cheer er meira en bara flaksandi dúskar og glimmer heldur kostar það blóð, svita og tár að ná langt í klappstýruheiminum, sem er Íslendingum frekar framandi.

Everything’s Gonna Be Okay

Frumsýningardagur: 16. janúar
Efnisveita: Freeform, Hulu
Aðalhlutverk: Josh Tomas, Kayla Cromer, Adam Fason og Maeve Press

Þessi sería kemur úr smiðju virta, ástralska grínistans Josh Tomas en í þessari seríu er fylgst með skordýrafræðingi á þrítugsaldri sem fær forræði fyrir tveimur hálfsystrum sínum, en önnur þeirra er einhverf. Systurnar eru báðar á unglingsaldri og útkoman er fyndin, hugljúf og yndisleg lýsing á heimi unglinga.

Little America

Frumsýningardagur: 17. janúar
Efnisveita: Apple TV+
Aðalhlutverk: Suraj Sharma, Rishi Danda, Shaun Toub og Angela Lin

Hver þáttur er byggður á sannri sögu innflytjenda í Bandaríkjunum þar sem farið er yfir sigra þeirra og reynslu á fyndinn og fallegan hátt. Kemur á daginn að hindranirnar sem þetta fólk þarf að yfirstíga eru oftast bundnar við stofnanir og kerfið en ekki þessi fáu rotnu epli sem beiða út kynþáttafordóma. Sería sem allir ættu að horfa á.

Seven Worlds, One Planet

Frumsýningardagur: 18. janúar
Efnisveita: BBC America

Heimildarþáttateymið hjá BBC ferðast heimsálfa á milli til að sýna okkur dýralífið í hverri heimsálfu fyrir sig. Myndefnið gerir mann nær orðlausan og serían er svo undurfögur og áhugaverð að maður gleymir sér í henni.