Rannsóknir hafa sýnt að fæstir þrífa kaffivélar eins oft og þeir ættu að gera það. Það eru nefnilega alls kyns bakteríur og óhreinindi sem geta hreiðrað um sig í þessu vinsæla heimilistæki og mjög mikilvægt að þrífa kaffivélar reglulega, til dæmis mánaðarlega.

Sumir framleiðendur kaffivéla, til dæmis véla sem nota hylki í uppáhellingu, eru með sérstakar leiðbeiningar um hvernig eigi að þrífa vélarnar og selja jafnvel lög sem ætlaður er til þess.

Svo eru það gömlu, góðu kaffivélarnar þar sem hellt er upp á tíu bolla í einu eins og ekkert sé. Það er leikur einn að þrífa þær og tekur enga stund.

Til að þrífa slíkar kaffivélar er vatnstankurinn fylltur með vatni og nokkrum matskeiðum af hvítu ediki. Kaffivélin er sett í gang (án kaffis að sjálfsögðu) og ediksblöndunni leyft að renna í gegnum allt kerfið. Þegar það er búið er vatnstankurinn fylltur á ný, nú aðeins með vatni, og vatninu leyft að renna í gegn til að hreinsa út edikslyktina og -bragðið. Einfaldara gerist það ekki.

Ég vil samt brýna fyrir fólki að athuga hvort sérstakar leiðbeiningar gildi um þá kaffivél sem er á heimilinu svo kaffiframleiðslan fari ekki í rugl.