Við lifum á fordæmalausum tímum, eins og oft hefur verið fleygt fram síðustu vikur og mánuði. Á slíkum tímum losnar oft um sköpunargleðina og nýjar og framsæknar hugmyndir verða að veruleika. Skapalón er ein af þessum hugmyndum.

Skapalón er nýtt, íslenskt birgðakerfi fyrir allt sem tengist ferðaþjónustunni, sem og aðra aðila sem vilja selja sínar vörur og þjónustu á einfaldan máta. Hugmyndin að Skapalóni kviknaði stuttu áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á með öllum sínum þunga, en í lágdeyðunni á þessum óvissutímum glæddist neistinn til að gera Skapalón að veruleika. Skapalón er mótspyrnan, tækifæri til að endurhugsa ferðaþjónustuna, sem hefur orðið fyrir gríðarlegu höggi síðustu mánuði.

„Við teljum að þetta sé hárréttur tími til að ráðast í það að endurhugsa ferðaþjónustuna á Íslandi eins og hún leggur sig. Í öllum lægðum felast tækifæri til framfara og það er nákvæmlega markmið Skapalóns – að stuðla að því að hrinda þessum framförum í framkvæmd,“ segir Guðrún Líf Björnsdóttir, framkvæmdastýra Skapalóns.

Teymið á bak við Skapalón er hokið af reynslu í íslenska ferðabransanum, en hefur einnig viðað að sér mikilli þekkingu í stjórnun fyrirtækja, viðburðahaldi, miðlun, markaðssetningu, vefsíðugerð og hönnun síðustu tvo áratugina, bæði hér heima og erlendis. Maðurinn sem leiðir þróun Skapalóns er markaðs- og þróunarstjórinn Guðmundur R. Einarsson, sem hefur unnið við vefsíðuhönnun og -þróun síðustu áratugina. Hann hefur meðal annars unnið vefsíður fyrir CNN, Daily Mail og Ríkislögreglustjóra, sem og unnið til verðlauna fyrir þróun og hönnun á vefsíðum fyrir ferðamannaiðnaðinn í Asíu.

Skapalón er vissulega fullkomið skapalón fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Hins vegar felast miklu fleiri möguleikar í Skapalóni. Fyrirtæki og aðilar í hvaða geira sem er geta nýtt Skapalón til að selja vörur og þjónustu, halda utan um birgðastöðu og nálgast sölutölur í rauntíma. Möguleikarnir eru því nánast endalausir með tilkomu Skapalóns og hægt að aðlaga kerfið að þörfum hvers og eins.

„Skapalón er framtíðin. Kerfið er afar einfalt í notkun og þannig höldum við niðri kostnaði án þess að það bitni á gæðum. Við hlökkum til að vinna náið með ferðaþjónustuaðilum að því að skapa hér á nýjan leik gott og sjálfbært umhverfi fyrir íslenska ferðaþjónustu, enda á hún mikið inni eins og við sáum í sumar þar sem bróðurpartur Íslendinga fékk að enduruppgötva landið sitt,“ segir Guðrún Líf.

Hægt er að sækja um aðgang að Skapalóni á vefsíðunni skapalon.is, en það kostar ekkert að fá kynningu á kerfinu. Nánari upplýsingar veitir Guðrún Líf í síma 699 8581 eða í gegnum netfangið gudrunlif@skapalon.is.