Það hafði margt undarlegt gerst í kringum heimili Gruber-fjölskyldunnar í Hinterkaifeck í Bæjaralandi, norðan við München í Þýskalandi, vorið 1922. Fjölskyldan gaf þessum undarlegu atburðum engan gaum og hélt lífið áfram sinn vanagang. Alls bjuggu sex manneskjur á heimili fjölskyldunnar, Andreas og Cäzilia Gruber, ekkjan dóttir þeirra, Viktoria Gabriel, börnin henar; Cäzilia, sjö ára og Josef, tveggja ára, og þernan Maria Baumgartner. Öll sex fundust látin í byrjun apríl árið 1922. Þau höfðu öll verið afhöðuð og eru Hinterkaifeck-morðin enn talin eitt ógeðfelldasta morðmál í sögu Þýskalands. Morðinginn fannst aldrei.

Draugur eða morðingi?

Spólum til baka um sex mánuði. Það var þá sem andrúmsloftið á heimili Gruber-fjölskyldunnar breyttist og dularfullir atburðir gerðust. Þá hætti þerna fjölskyldunnar, en því hefur verið haldið fram að þernan hafi hætt því draugagangur hafi verið í húsinu. Hélt hún það því hún heyrði skringileg hljóð frá háaloftinu.

Heimili fjölskyldunnar.

Um mánuði áður en Gruber-fjölskyldan og nýja þerna þeirra fundust myrt fann fjölskyldufaðirinn Andreas dagblað á heimilinu. Það væri kannski ekkert tiltökumál nema fyrir þær sakir að Andreas minntist þess ekki að hafa keypt blaðið. Enn fremur var enginn áskrifandi að blaðinu í nágrenninu og kannaðist í raun enginn við dularfulla blaðið. Nokkrum dögum áður en fjölskyldan var myrt sá Andreas fótspor í nýföllnum snjó sem lágu úr skógi rétt hjá að vélaherbergi á landareign Gruber-fjölskyldunnar. Síðar sama kvöld heyrði Andreas fótatak á háaloftinu og leitaði um húsið hátt og lágt en fann engan aðkomumann. Andreas vildi hins vegar enga hjálp frá nærliggjandi bændum eða lögreglunni og því var málið aldrei rannsakað.

Fyrsti vinnudagurinn sá síðasti

Síðla dags þann 31. mars árið 1922, sem var föstudagur, mætti nýja þerna fjölskyldunnar, fyrrnefnd Maria Baumgartner, til starfa á heimilinu. Systir hennar skutlaði henni á nýja vinnustaðinn, en systirin er líklegast síðasta manneskjan til að sjá Mariu og Gruber-fjölskylduna á lífi.

Fyrsti dagur Mariu í starfi var einnig hennar síðasti, því talið er að Viktoria Gabriel, dóttir hennar Cäzilia og foreldrar hennar, Andreas og Cäzilia, hafi verið ginnt í hlöðuna á landareigninni síðla kvölds og myrt þar, eitt í einu. Morðinginn, eða morðingjarnir, virðast hafa notað haka sem fjölskyldan átti við verknaðinn. Því næst hélt hann, eða þeir, inn á heimili fjölskyldunnar og drápu Josef, sem var sofandi í vöggu, og Mariu, sem var sofandi í herbergi sínu, með sama vopni. Talið er að Cäzilia hin yngri hafi ekki dáið samstundis og legið innan um lík móður sinnar, afa og ömmu í nokkrar klukkustundir áður en hún lést.

Fjórir dagar liðu áður en einhver fann líkin. Smalinn Albert Hofner átti erindi við fjölskylduna þann 4. apríl, en hann hafði lofað Andreas að gera við vél á landareigninni. Hann bankaði og reyndi að ná sambandi við fjölskylduna en fékk ekkert svar. Hann beið í um klukkustund en hófst síðan handa við að gera við vélina sem tók hann tæpa fimm klukkutíma. Síðla dags sendi Lorenz Schlittenbauer, nágranni fjölskyldunnar, syni sína til að athuga hvort þeir næðu sambandi við fjölskylduna. Allt kom fyrir ekki og þá fylltist Lorenz grunsemda. Hann fór á bæinn og það var þá sem hann fann fjölskylduna og þernu þeirra látna.

Líkin blöstu við inni í hlöðunni.

Margir grunaðir

Lögreglan í München rannsakaði málið, en erfitt reyndist að komast til botns í því sökum þess hve margir hefðu gengið um morðvettvanginn, fært til líkin og jafnvel eldað og borðað mat í eldhúsinu. Morðvopnið fannst ekki á landareigninni. Lögreglunni grunaði í fyrstu að um innbrot væri að ræða og yfirheyrði farandverkamenn, flækinga og íbúa í nærliggjandi þorpum. Þegar að lögreglan fann háar fjárhæðir í húsinu þá flaug þessi kenning út um gluggann. Við nánari rannsókn kom í ljós að morðinginn, eða morðingjarnir, hafði dvalið á bænum í nokkra daga eftir ódæðisverknaðinn því einhver hafði gefið dýrunum og borðað mat úr eldhúsinu.

Lögreglan ákvað að útbúa lista af grunuðum en þrátt fyrir ítrekaðar handtökur og yfirheyrslur hefur morðinginn aldrei fundist. Meðal grunaðra var Karl Gabriel, eiginmaður Viktoriu Gabriel. Talið var að hann hafði látist í fyrri heimsstyrjöldinni en lík hans fannst aldrei. Því vöknuðu upp grunsemdir að hann væri í raun ekki látinn heldur hefði snúið aftur til Hinterkaifeck og leitað hefnda vegna þess að talið var að Josef væri sonur Viktoriu og föður hennar Andreas. Altalað var í þorpinu að mikið sifjaspell væri á heimilinu.

Annar maður sem lá sterklega undir grun var Lorenz Schlittenbauer. Sagt var að Lorenz ætti í ástarsambandi við Viktoriu og væri í raun faðir Josefs. Lorenz lá undir grun því hann hagaði sér grunsamlega eftir að hann fann líkin á landareign fjölskyldunnar. Hann tók úr lás á heimilinu eftir að hann fann líkin í hlöðunni og fór inn einn. Hann var með lykil á sér, en lykill að húsinu hafði horfið nokkrum dögum fyrir morðin. Það gæti hins vegar verið að Viktoria hafi gefið elskhuga sínum lykilinn. Vitað er að Lorenz átti við líkin og mengaði morðvettvanginn þennan dag. Ein af tilgátunum var að Lorenz væri ósáttur við að þurfa að sjá fyrir Josef fjárhagslega og hafi því drepið fjölskylduna. Áður en Lorenz lést árið 1941 vann hann mörg meiðyrðamál gegn fólki sem fullyrti að hann væri Hinterkaifeck-morðinginn.

Þetta er aðeins brotabrot af lista yfir hina grunuðu en rithöfundurinn Bill James hélt því fram í bók sinni, The Man from the Train, að bandaríski raðmorðinginn Paul Mueller bæri ábyrgð á morðunum. Honum fannst verknaðurinn svipa til glæpa í Bandaríkjunum sem Paul framdi, en þessi kenning hefur aldrei verið sönnuð.

Minnisvarði um fjölskylduna.

Morðinginn fundinn?

Margar greinar og bækur hafa verið skrifaðar um morðin í Hinterkaifeck, en enginn hefur enn komist til botns í þessu dularfulla máli. Margar kenningar eru enn á lofti um morðin en þýskir nemendur í lögregluskólanum notuð nútímatækni fyrir nokkrum árum til að reyna að leysa málið. Nemendurnir útilokuðu alla grunuðu á listanum nema enn, en neituðu að gefa upp nafnið á honum þar sem hann væri látinn. Vildu þau vernda eftirlifandi fjölskyldu hans. Heimurinn mun því líklegast aldrei vita hver framdi þennan hrottalega glæp.