Ég get því miður ekki eignað mér heiðurinn að þessari skúffuköku, en uppskriftina fann ég á síðunni Pure Wow. Við erum að tala um dúnmjúka kanilköku með eplasíderkremi – virkilega gómsæt og fullkomin haustkaka

Kanilskúffukaka með eplasíderkremi

Kaka:

1/2 bolli grænmetisolía
1 bolli sykur
1/2 bolli ljóspúðursykur
60 g smjör, brætt
3 stór egg
1 msk vanilludropar
2 1/2 bolli hveiti
1 msk kanill
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/2 bolli súrmjólk

Krem:

170 g smjör
3 bollar flórsykur
1 tsk vanilludropar
kanill á hnífsoddi
sjávarsalt á hnífsoddi
1/4 bolli eplasíder sem búið er að sjóða

Aðferð:

Byrjum á kökunni. Hitið ofninn í 180°C og smyrjið ílangt form eða litla skúffu, sirka 33 sentímetra langa. Blandið olíu, sykri, púðursykri og smjöri saman í skál. Bætið eggjunum saman við, einu í einu. Hrærið vanilludropum saman við. Blandið hveiti, kanil, lyftidufti, matarsóda og salti saman í annarri skál. Blandið hveitiblöndunni saman við olíublönduna þar til allt er blandað saman. Blandið súrmjólkinni saman við og hrærið. Hellið deiginu í formið og bakið í 30 til 35 mínútur. Látið kólna áður en þið setjið kremið á.

Þeytið smjör og flórsykur saman þar til blandan er létt og ljós, eða í um 4 mínútur. Blandið síðan vanilludropum, kanil og salti saman við. Blandið sídernum smátt og smátt saman við á meðan þið hrærið. Skreytið kökuna með kreminu og gúffið í ykkur!