„Annað hvort drepur þú pabba þinn eða ég drep mig.“ Ég fékk aldrei að heyra þessi orð sem betur fer. Hins vegar var þetta það síðasta sem móðir mín sagði við litla bróður minn áður en hún stóð við stóru orðin. Ég var rétt skriðinn yfir tvítugt þegar hún fyrirfór sér en litli bróðir minn var aðeins sextán ára. Ég spyr mig stöðugt að því hvort ég ætti móður og bróður á lífi ef hann hefði látið slag standa og gengið frá föður mínum. Innst inni veit ég samt að það hefði ekki breytt neinu. Ég væri eflaust að syrgja þau öll þrjú eins og ég geri í dag.

Þegar að móðir mín fyrirfór sér braust allur tilfinningaskalinn út. Stundum þyrmdi svo yfir mig að ég náði ekki andanum. Reiði, sorg, hatur, eftirsjá, glundroði, sektarkennd og skömm, svo fátt eitt sé nefnt. Í staðinn fyrir að syrgja ástvin, minnast hans með gleði og ást í hjarta og þakka fyrir þann tíma sem ég átti með móður minni, þá litaðist sorgarferlið af yfirþyrmandi reiði og hatri í garð konunnar sem ég sá áður ekki sólina fyrir. Ég náði ekki að skilja af hverju hún fór þessa leið. Ég kenndi sjálfum mér um. Ég fann fyrir höfnun sem ekkert barn á að finna fyrir, nokkurn tímann.

Það sem gerði þetta skringilega sorgarferli verra var að ég fékk enga aðstoð og ég vissi ekkert hvert ég átti að leita. Við bræðurnir lentum á milli tveggja fjölskyldna sem vildu að við tækjum afstöðu með eða á móti pabba okkur, en einhverjir fjölskyldumeðlimir stóðu í þeirri trú að hann ætti hlut að máli í andláti móður okkar. Við bræðurnir gátum auðvitað ekki tekið þessa afstöðu og fengum við svo sannarlega að kenna á því.

Ég bauð pabba í fjögurra ára afmælisveislu hjá dóttur minni og í mótmælaskyni mætti enginn úr móðurfjölskyldu minni. Ég man enn þá eftir tilfinningunni þegar að litla dóttir mín spurði mig um þau og hvar amma sín væri. Ég var nýbúinn að eignast son með fyrrverandi sambýliskonu minni á þessum tíma og það eina sem ég hugsaði var að koma henni og drengnum frá mér svo þau þyrftu ekki að ganga í gegnum þetta. Ég var nefnilega búinn að ákveða að fyrirfara mér á þessum tíma.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að börn foreldra sem fyrirfara sér eru talsvert líklegri til að fyrirfara sér á lífsleiðinni. Ég hefði því getað endað sem breyta í því mengi. Það sem varð til þess að ég tók ekki þá ákvörðun að binda enda á líf mitt voru, og eru, börnin mín. Á þessum hræðilega og dimma tíma voru börnin mín ljósið mitt. Þess vegna gekk ég ekki alla leið. Ég gat ekki hugsað mér að láta þau ganga í gegnum það sem ég þurfti að ganga í gegnum. Ég er mjög glaður í dag að þetta gekk ekki upp hjá mér og ég lifi fyrir lífið og vill lifa.

Mér finnst hins vegar enn mjög sárt að hugsa til þess að móðir mín hafi ekki séð neinn kost annan en að fyrirfara sér. Hún drakk ofan í geðræn vandamál og á endanum fannst henni þetta vera eina leiðin sem væri fær. Hefðbundin áfengismeðferð hjálpaði henni ekki neitt því vandinn var ekki áfengið. Ef hún hefði komist í alvöru meðferð sem hefði einblínt á að vinna í því geðræna, komist að rót vandans, þá hefði hún hugsanlega haft þetta af. Áfengið gerði hana ekki sjúka. Hún var sjúk og drakk til að sleppa frá eigin breiskleikum. Á endanum gat hún ekki flúið lengur.

Það var ekki fyrr en mörgum, mörgum árum eftir andlát móður minnar að ég lærði, í gegnum alls kyns þerapíu, að ég mætti setja tilfinningar mínar í orð. Að það væri í lagi að finna fyrir hatri og reiði í garð móður minnar á þessum tíma. Það væri eðlilegt að börn færu í gegnum þennan tilfinningaskala því þau skilja ekki ástæðuna á bak við sjálfsmorðið. Þau ná ekki að taka utan um þetta og kenna sér um allt saman. Það var mikill léttir fyrir mig að geta komið þessu í orð. Að mega segja það upphátt að ég hafi hatað hana fyrir að gera þetta. Þá loksins gat batinn hafist. Ég auðvitað sætti mig aldrei við að hún hafi kosið að fara þessa leið en ég er ekki reiður lengur. Ég bara vildi að ég hefði fengið hjálp til að komast á þann stað miklu, miklu fyrr, sem og litli bróðir minn. Hann náði sér aldrei eftir að mamma framdi sjálfsmorð og fór sömu leið nokkrum árum síðar. Hann varð því að tölfræði í einum af þessum fjölmörgu rannsóknum um börn alkóhólista. Barn sem hefði verið hægt að bjarga.