Ég er rosalega hrifin af sterkum kjúklingavængjum en undanfarið hef ég orðið hrifnari og hrifnari af blómkálsvængjum. Þessa uppskrift fann ég á síðunni What Molly Made og get ég 100 prósent mælt með henni.

Blómkáls Buffalo vængir

Blómkál – Hráefni:

1 meðalstór blómkálshaus, skorinn í bita
1 bolli möndlumjöl
½ bolli Tapioca hveiti (eða 1 bolli glútenlaust hveiti)
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
1 tsk. paprikukrydd
2 tsk. hvítlaukskrydd
¾ bolli kókosmjólk

Buffalo sósa – Hráefni:

¾ bolli „hot sauce“
3 msk. hunang (eða hlynsíróp fyrir grænkera)

Ranch sósa- Hráefni:

½ bolli vegan mæjónes
¼ bolli kókosmjólk
1 tsk. hvítlaukskrydd
¼ tsk. paprikukrydd
1½ tsk. þurrkaður graslaukur
½ tsk. þurrkað dill
½ tsk. nýkreistur sítrónusafi
¼ tsk. sjávarsalt

Aðferð:

Hitið ofninn í 175°C og setjið smjörpappír á ofnplötu. Blandið möndlumjöli, Tapioca hveiti, hvítlaukskryddi, paprikukryddi og salti saman í skál. Bætið mjólk saman við og þeytið þar til blandan er orðin að deigi. Dýfið blómkálsbitunum í deigið og raðið á ofnplötuna. Bakið í 20 mínútur, snúið þeim síðan við og bakið í aðrar 10 mínútur, eða þar til deigið er gyllt á lið. Undirbúið Buffalo sósuna á meðan að „vængirnir“ bakast. Blandið „hot sauce“ og hunangi saman í stórri skál. Blandið „vængjunum“ saman við Buffalo sósuna þannig að sósan hylji þá. Raðið aftur á ofnplötu og bakið í 10 mínútur. Á meðan þeir bakast í þetta sinn er Ranch sósan undirbúin. Blandið öllum hráefnum vel saman og berið strax fram með vængjunum.