Hreinlæti er mikilvægt í eldhúsinu, en það er einnig mikilvægt að losa sig við mat og hluti sem gætu gert meiri skaða en gott. Hér eru átta dæmi um slíkt.

Krydd

Manni finnst sem þurrkað krydd geti enst að eilífu, en sú er ekki raunin. Þurrkað krydd tapar sínu dásamlega bragði og lykt þegar það hefur staðið í eldhússkápnum í um ár. Einfaldasta leiðin til að sjá hvort tími sé kominn til að henda kryddinu er einfaldlega að þefa af því. Ef það hefur tapað lykt sinni eða lyktin orðin skrýtin þá er kominn tími á að skipta því út fyrir nýrra, yngra krydd.

Það er hins vegar meinlaust að nota gamalt krydd í matargerð. Maður verður ekki veikur af því en maður gæti hins vegar orðið matsár þegar að maturinn er ekki uppfullur af góðu bragði.

Olía

Það er ekki mælt með að nota olíur sem eru meira en þriggja til fimm mánaða gamlar því þá gætu þær gefið matnum beiskt eða súrt bragð, þó það sé algjörlega hættulaust.

Þeir sem sjá ekki fram á að geta notað olíuflösku innan þess tímabil ættu að velta fyrir sér að kaupa minni flösku eða finna félaga í sömu stöðu til að deila olíu með.

Afgangar

Það er þjóðráð að fara reglulega í gegnum afganga í ísskápnum. Oft leynir það sér ekki þegar maður þefar af afgöngum hvort þeir eru í lagi eða ekki, en stundum blasir það ekki við. Ef maturinn er búinn að breyta um lit eða lykt þá er best að henda honum. Stundum getur eldaður matur sem er eldri en nokkurra daga gamall valdið matareitrun. Það er því ekki áhættunnar virði og best að borða afganga strax næsta dag.

Svampur

Svampar soga í sig bakteríur og óhreinindi. Best er að skipta skítugum svampi út á eins eða tveggja vikna fresti. Sumir reyna að fríska upp á svampinn, til dæmis með því að hita hann í örbylgjuofni til að drepa bakteríur, en slíkar aðferðir eru ekki skotheldar.

Bjór

Ekki geyma bjór í ísskápnum í marga mánuði. Þegar að bjór verður gamall brotnar próteinið í honum niður og oxun getur hafist, sem breytir bragði og áferð bjórsins. Eftir situr flatur, bragðlaus bjór sem í ofanálagi er illa lyktandi.

Matarsódi

Matarsódi getur enst í eldhúsinu í hálft til eitt ár ef hann er geymdur í góðum, lofttæmdum umbúðum. Skemmdur matarsódi getur hins vegar rústað bakstrinum þannig að góðgætið lyftir sér ekki og er skrýtið á bragðið. Það er hins vegar hægt að athuga hvort matarsódinn sé í lagi á mjög einfaldan máta, eins og sjá má hér fyrir neðan.

Matarsóda-prófið

Hráefni:

Matarsódi
Heitt vatn
Hvítt edik eða eplaedik

Aðferð:

Setjið 1/2 bolla af heitu vatni í skál. Bætið 1/4 teskeið af ediki saman við. Bætið 1/4 teskeið af matarsóda við blönduna. Ef blandan freyðir strax þá er matarsódinn í lagi! Ef ekki, þá er kominn tími á nýjan bauk af matarsóda.

Pastasósa

Það er þjóðráð að geyma krukkur af pastasósum sem hafa verið opnaðar. Það þarf hins vegar að nota fyrrnefnda pastasósa innan við viku eftir að hún er opnuð, annars þarf hún að fara beint í ruslið. Mygla getur nefnilega myndast í sósunni ef hún er geymd lengur en viku, og sú mygla getur valdið veikindum.

Vín

Opin vínflaska, þó tappinn sé settur aftur á, endist ekkert sérstaklega lengi í ísskápnum, en það er einmitt mjög mikilvægt að geyma þær í ísskáp svo þær endist lengur. Flest vín endast hins vegar aðeins í nokkra daga eftir opnun því oxunin hefst við opnun og eftir nokkra daga er vínið orðið frekar skrýtið og ógeðslegt á bragðið. Þjóðráð er að búa til klaka úr afgangsvíni til að nota í matargerð, svo sem sósur og súpur.