Marengstertur eru nánast skylda á veisluborði Íslendinga. Marengsinn hefur hins vegar reynst mörgum þyrnir í augum því það þarf allt að ganga upp svo hann klikki ekki. Oft heyrir maður um marengstertur sem falla, bakast ekki eða brenna, en af hverju verður marengs ekki alltaf yndislega brakandi og gómsætur? Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Áður en þú ferð í marengsráðin skaltu skoða þessa, þessa og þessa uppskrift að marengs til að fá smá vatn í munninn.

Eggin eru óþæg

Þegar kemur að eggjum er langvænlegast til árangurs að hafa þau við stofuhita. Það er hægt að aðskilja þau á meðan þau eru köld en leyfðu svo eggjahvítunum að hvíla á eldhúsborðinu í hálftíma þangað til þær ná stofuhita.

Ekkert plast, takk

Lykillinn að yndislegum marengs er að þeyta hann í tandurhreinni skál. Og þá meina ég TANDURHREINNI. Enginn raki, engin olía, ekki neitt nema eggjahvítur og sykur. Til þess að vera viss um að skálin sé hrein er best að nota skál úr málmi eða gleri. Fita og feiti geta nefnilega sest að í plastskálum, svo vel að maður sér það stundum ekki.

Eggjarauðan vill vera memm

Einn lítill dropi af eggjarauðu eyðileggur marengsinn. Það er best að aðskilja eggjahvíturnar ofan í minni skál og hella þeim síðan ofan í stóru skálina sem þú þeytir marengsinn í. Ef dropi af eggjarauðu leynist með hvítunum er best að ná honum upp úr með eyrnapinna eða smá brauðbita. Sama hvað þú gerir, ekki nota puttana til að veiða hann upp úr – fita og feiti, þið munið! Best er að nota ekki hvítuna ef smá eggjarauða læðist með. Þá komum við aftur að litlu skálinni. Ef þið aðskiljið bara eitt egg í einu þurfið þið ekki að byrja upp á nýtt ef eitt egg er óþægt.

Slakið á sykrinum

Bætið sykrinum hægt saman við eggjahvíturnar, en samt í einni bunu. Ekki dömpa öllum sykrinum saman við – það getur eyðilagt marengsinn.

Þeyta, þeyta, þeyta

Þeytið eggjahvítur og sykur í 15 til 20 mínútur og ekki svindla! Blandan á að vera það stíf að þið getið sett skálina á hvolf án þess að dropi leki niður.

Gefið marengsinum smá búst

Hendið 1 til 2 teskeiðum af lyftidufti í blönduna til að hjálpa marengsinum að lyfta sér. Hann á eftir að þakka ykkur fyrir þetta seinna. Einnig er hægt að setja ögn af Cream of Tartar saman við til flýta fyrir stífingunni.

Brenndur marengs forðast eldinn

Það þarf að baka marengs á lágum hita svo rakinn í blöndunni gufi smátt og smátt upp. Ef hitinn er of hár brennur marengsinn að utan en er eins og tyggjó að innan.

Þolinmæði er dyggð

Ekki rífa marengsinn strax úr ofninum heldur opnið ofnhurðina aðeins og leyfið marengsinum að kólna inni í ofninum. Þá gufar rakinn enn betur upp og marengsinn verður stökkur og góður.

Þessi ráð og svo mörg fleiri er að finna í minni fyrstu bók, Minn sykursæti lífsstíll.