Bachelorette-stjarnan Clare Crawley og Bachelorette-keppandinn Dale Moss hafa slitið trúlofun sinni og eru hætt saman. Moss tilkynnir þetta á Instagram-síðu sinni.

Crawley, 39 ára, var piparjónkan í nýjustu seríu af Bachelorette sem sýnd var á síðasta ári. Nánast samstundis féll hún fyrir Moss, 32 ára. Þau trúlofuðu sig eftir aðeins tveggja vikna kynni og því þurfti að kippa Crawley út úr seríu fimmtán af The Bachelorette og setja aðra piparjónku inn í þáttinn í hennar stað.

Alls kyns sögur fóru á kreik eftir að Crawley og Moss felldu hugi saman svo snemma í þáttaröðinni og töldu margir að þau hefðu talað saman áður en tökur hófust. Þau hafa bæði staðfastlega neitað því.

„Ekki neitt, ekki eitt orð fór okkar á milli. Ég sver það við gröf föður míns að við töluðum ekki saman og hittumst ekki, 100 prósent,“ sagði Crawley við Chris Harrison, kynni The Bachelorette, eftir trúlofunina. „Ég veit hvað ég vill ekki og því var ég mjög skýr í kollinum þegar ég kom inn í þetta verkefni og einblíndi á það sem ég vildi. Mér finnst Dale passa mér fullkomlega.“

Moss og Crawley sögðu seint á síðasta ári að þau væru að íhuga barneignir en á Instagram segir Moss að þau skilji í góðu.

„Mig langaði að deila með ykur að Clare og ég höfum ákveðið að fara í sitthvora áttina. Við metum ástina og stuðninginn sem við höfum fengið frá svo mörgum en þetta er heilbrigðasta ákvörðunin fyrir okkur bæði núna,“ skrifar hann og heldur áfram.

„Við trúum á að leiða með ást og að vera trú okkur sjálfum – eitthvað sem fjölskyldur okkar hafa kennt okkur allt lífið. Við óskum hvoru öðru alls hins besta.“