Ég elska kjúkling í allri sinni dýrð og veit fátt betra en djúsí, djúpsteiktur kjúklingur sem er algjör sparimatur. ég hreinlega man ekki hvar ég fann uppskriftina hér fyrir neðan en ég get vottað að þessi djúpsteikti kjúlli er jafnvel betri en sá sem finnst á KFC.

Djúpsteiktur kjúklingur

Hráefni:

14 kjúklingaleggir, eða 7 leggir og 7 læri
1 – 2 lítrar olía til steikingar
2 bollar hveiti
2 msk. maíssterkja
1½ msk. hvítlaukssalt
1 tsk. cayenne pipar krydd
1 tsk. hvítur pipar
½ msk. reykt paprikukrydd
1 msk. salt
1 tsk. svartur pipar
½ msk. engiferkrydd
2 stór egg
1¾ bolli súrmjólk
1½ bolli hveiti
2 msk. hvítlaukskrydd
½ tsk. cayenne pipar
1 tsk. salt
¼ tsk. svartur pipar

Aðferð:

Þurrkið kjúklinginn með pappírsþurrkum og leyfið honum að þorna á eldhúsborði í 15 mínútur. Stráið smá salti og pipar yfir hann og setjið til hliðar. Blandið síðan 2 bollum af hveiti, maíssterkju, 1½ matskeið af hvítlaukssalti, 1 teskeið af cayenne pipar, hvítum pipar, reyktu paprikukryddi, 1 matskeið af salti, 1 teskeið af svörtum pipar og engiferkryddi saman í skál og setjið til hliðar.

Blandið eggjum, súrmjólk, hveiti og restinni af kryddinu saman í annarri skál. Takið svo til stóran pott og hitið olíuna þar til hún nær 160°C gráðu hita. Á meðan dýfið þið kjúklingabitunum í þurrefnablönduna, síðan í blautu blönduna og síðan aftur í þurrefnablönduna. Djúpsteikið síðan kjúklinginn í um 15 mínútur, en passið ykkur að setja hann í og taka hann úr olíunni með töng svo þið brennið ykkur ekki.

Gott er að setja kjúklinginn síðan á grind með disk undir svo mesta olían geti lekið af honum. Leyfið honum að kólna í tíu mínútur áður en kjúklingurinn er borinn fram.