Einn kaldan dag í febrúar árið 1957 fann ungur háskólanemi kassa utan um vöggu á Fox Chase-svæðinu í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Inni í kassanum var lík ungs drengs, á aldrinum fjögurra til sex ára. Drengurinn hafði verið lúbarinn og var líkið vafið inn í teppi. Neminn tilkynnti fundinn til lögreglunnar og upp hófst leit að morðingjanum, sem og rannsókn á hver litli drengurinn var.

Enn þann dag í dag er ekki ljóst hver þessi litli drengur var. Ekkert er vitað um hann, ekki einu sinni nafnið hans og því gengur hann undir nafninu „drengurinn í kassanum“ eða „óþekkta barn Bandaríkjanna“. Er þetta eitt dularfyllsta mál Bandaríkjanna, sérstaklega í ljósi þess að enginn gaf sig fram sem ættingi eða foreldri drengsins.

Hér fannst drengurinn.

Vannærður og baðaður

Eins og áður segir hafði drengurinn verið laminn. Þá hafði hár hans einnig verið klippt, hugsanlega eftir að hann var myrtur þar sem hárflygsur fundust á líkinu. Drengurinn var vannærður, með skurði á ökkla og nára. Einnig var talið að hann hefði borðað bakaðar baunir og verið baðaður áður en hann lést.

Fyrsta verk lögreglunnar var að kanna fingraför drengsins og ríkti mikil bjartsýni um að málið yrði upplýst fyrr en varði. Hins vegar gaf sig enginn fram með upplýsingar um málið. Málið vakti mikla athygli í Fíladelfíu og voru um fjögur hundruð dreifibréf prentuð á svæðinu til að auglýsa eftir einhverjum sem gæti gefið upplýsingar um drenginn í kassanum. Um tíma fylgdi þessi dreifibréf öllum gasreikningum í Fíladelfíu.

Lögreglan rannsakaði svæðið þar sem drengurinn fannst í þaula. 270 lögreglumenn fínkembdu svæðið og fundu bláa fullorðinshúfu, barnatrefil og hvítan vasaklút með stafnum G í einu horninu. Þessir munir hjálpuðu ekki til við leit að sökudólgnum og þó að almenningur hefði gríðarlegan áhuga á málinu þá kom aldrei í ljós hver drengurinn var.

Dularfulla fósturheimilið

Dreifibréfið.

Lögreglan eltist aðallega við tvær kenningar í málinu, sem komu þó upp á yfirborðið nokkru eftir morðið. Önnur þeirra fæddist árið 1960 þegar að Remington Bristow, starfsmaður réttarlæknis, hafði samband við miðil, en Bristow lagði kapp á að upplýsa málið allt þar til hann lést árið 1993. Miðillinn leiddi Bristow til fósturheimilis í Fíladelfíu en þar fann hann vöggu sem var af sömu tegund og hafði verið í kassanum sem drengurinn fannst í, sem og svipuð teppi og líkið hafði verið vafið inn í. Bristow hélt því fram að stjúpdóttir mannsins sem sá um fósturheimilið hefði átt drenginn í kassanum. Hann taldi að andlát hans hefði verið slys og að stjúpfeðginin hefðu losað sig við líkið. Lögreglan fann hins vegar ekki nógu sterk sönnunargögn til að tengja stjúpfeðginin við morðið. Stjúpfeðginin voru kölluð til yfirheyrslna árið 1998 vegna málsins, en þá voru þau orðin hjón. Eftir yfirheyrslur var þessum anga málsins lokað.

Misþyrmt í tæp þrjú ár

Hin kenningin sem þótti vænleg til árangurs fæddist í febrúar árið 2002 þegar að kona sem er kölluð Martha gaf sig fram til lögreglu. Framburður Mörthu var trúverðugur en hún samt talin slappt vitni þar sem hún glímdi við geðræn vandamál. Martha hélt því fram að móðir sín hefði keypt drenginn sumarið 1954. Móðir hennar var ofbeldismanneskja og þurfti drengurinn að þola líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi í hátt í þrjú ár að sögn Mörthu. Samkvæmt vitnisburði hennar ældi drengurinn kvöldmatnum sínum, bökuðum baunum, eitt kvöld og var þá laminn á hrottafenginn hátt, með þeim afleiðingum að hann féll harkalega í gólfið. Í kjölfarið var hann baðaður, en hann lést í baðinu. Þessi lýsing Mörthu passaði við niðurstöður krufningar, en Martha bætti við að móðir hennar hefði klippt hár drengsins svo ekki væri hægt að bera kennsl á líkið. Martha var síðan neydd til að hjálpa móður sinni að fela líkið. Lögreglan náði ekki að sannreyna sögu Mörthu og nágrannar móður hennar könnuðust ekki við að lítill drengur hefði búið með mæðgunum. Því féll þessi kenning um sjálfa sig.

Margir reyna að leysa ráðgátuna

Tölvugerð mynd af drengnum.

Í dag er tölvugerð mynd af drengnum í gagnagrunni fyrir horfin börn í Bandaríkjunum. Lík hans var grafið upp árið 1998 í þeim tilgangi að taka úr því DNA sýni. Mikill fjöldi mætti þegar að líkið var grafið aftur í Ivy Hill-kirkjugarðinum í Cedarbrook í Fíladelfíu en á legsteininum stendur einfaldlega „America’s Unknown Child“, eða „Óþekkta barn Bandaríkjanna“.

Enn þann dag í dag eru fjölmargir sérfræðingar og áhugamenn að reyna að leysa ráðgátuna um drenginn í kassanum. Þá hefur málið verið yrkisefni í dægurmenningu og þættir byggðir af málinu verið sýndir í þáttaröðunum Cold Case, CSI: Crime Scene Investigation og Law & Order: Special Victims Unit. Óvíst er hvort það kemur einhvern tímann í ljós hver þessi vesalings drengur var og virðist enginn sakna hans. Morðið var ekki aðeins hrottafengið heldur málið allt dapurlegra en orð fá lýst.