Söngkonan Karitas Harpa Davíðsdóttir gaf nýverið út lagið I love you, en lagið er af væntanlegri EP plötu Karitasar. Karitas Harpa skrifar hjartnæman pistil um nýja lagið á Facebook, sem hún gaf Fréttanetinu leyfi til að deila.

„Í febrúar á þessu ári fékk ég óvænt jákvæðar niðurstöður á þungunarprófi, vissulega var stutt síðan Hrafn kom í heiminn, ekki ár, en ég var bjartsýn og til í að takast á við verkefnið. Það er magnað hvað hausinn fer hratt á flug, hvernig á örfáum dögum er maður búinn að ímynda sér framtíðina, sjá fyrir sér mögulegar aðstæður, hverju þurfi að ráðstafa og jafnvel komin/n með myndir í höfuðið,“ skrifar Karitas Harpa og heldur áfram.

„Lífið lék við mig, nýtt ár, þetta ár yrði geðveikt! (Kórónufaraldurinn var bara rétt að gera vart við sig hérna svo ég áttaði mig ekki á alvarleikanum framundan á árinu) ég var loks að gefa út mína eigin tónlist og nokkrum dögum síðar var ég einmitt stödd í upptökum á myndbandi við fyrstu smáskífuna mína í langan tíma. Ég var glöð, ég var spennt en þá byrjaði að blæða. Ég veit að það getur verið náttúrulegur hlutur að blæða í upphafi meðgöngu en ég hafði ekki upplifað það áður, með hvorugan strákinn og ég vissi bara að eitthvað væri ekki eins og það átti sér að vera. Viku síðar fékk ég það staðfest af lækni, fósturmissir var að eiga sér stað.“

Lagið hjálpaði henni

Karitas Harpa bætir við að hún hafi ekki verið viss hvort hún myndi gefa lagið I love you út, en með laginu náði hún að vinna úr fósturmissinn.

„Ég var ekki komin langt og svona hlutir gerast. Ég er mjög blessuð og meðvituð um hve blessuð ég er að eiga fyrir 2 heilbrigða drengi og fannst ég varla eiga rétt á þessum tilfinningum en þetta voru tilfinningar sem ég hafði ekki upplifað áður, aðeins heyrt um frá öðrum. Ég settist niður með ukulele-ið mitt og glamraði nokkur grip, út úr mér kom texti og klukkustund síðar var komið lag. Lagið var úrvinnsla og ég fann það svo sterkt, þar gat ég sett hugsanir mínar niður á blað. Ég var alls ekki viss um hvort ég myndi gefa það út eða hvað ég ætti að gera við það en eins og lagið hjálpaði mér, gæti það mögulega hjálpað einhverjum einum eða veitt þó ekki nema örlitla huggun, huggun sem felur í sér að viðkomandi er ekki ein/n í heiminum að burðast með þessar tilfinningar.“

Hér má sjá Karitas Hörpu með fjölskyldunni. Lengst til vinstri er Ómar Elí, semvar að byrja í 1. bekk. Við hlið hans er litli bróðir Hrafn, sem varð eins árs í maí, í fangi föður síns, Arons Leví.

Karitas Harpa er í sambúð með Aroni Leví Beck og stuttu eftir fósturmissinn fengu þau þær gleðifregnir að þau ættu von á barni. Nú er Karitas Harpa gengin 27 vikur með litla hnátu, en fyrir eiga þau Aron einn son, Hrafn, sem er eins árs síðan í maí, sem og Karitas Harpa á soninn Ómar Elí úr fyrra sambandi, en guttinn sá er í 1. bekk.

Fékk góða hjálp

Karitas Harpa fékk góða hjálp við vinnslu á laginu I love you.

„Hinn ómfagri og ljúfi Svavar Knútur veitti mér svo þann heiður að fegra lagið ennþá frekar með rödd sinni og ukulele spili og er ég honum því gífurlega þakklát. Það er einn maður með stórt og fallegt hjarta, einlægur með eindæmum og ofboðslega skemmtilegur. Hann ætti að vera öllum vel kunnur en ef svo vill til að einhver hefur ekki kynnt sér hann sem tónlistarmann og ljúfling mæli ég með tónlistinni hans og því að fylgja honum á samfélagsmiðlum. Aðrir ljúflingar komu einnig að því að gera lagið eins og það er í dag, sérstakar þakkir fá Zöe Ruth Erwin fyrir pródúseringu, Alexander Freyr fyrir gullfallegan gítarleik, Skúli Gíslason fyrir slagverk og Ásmundur Jóhannsson fyrir hljóðblöndun og masteringu.“

Sjá einnig:

„Nú er ég tilbúin að loka þessum kafla“

Óvíst er hvort Karitas Harpa fái tækifæri til að flytja lagið fyrir áhorfendur í bráð, en það er komið á helstu streymisveitur.

„Lagið I love you er nú aðgengilegt á streymisveitum og myndi það gleðja mig gífurlega ef þið gæfuð því eins og eina hlustun eða deilingu. Tækifærin til að spila það lifandi eru fá sem engin þessa daga en vonandi, einn daginn, kem ég til með að geta spilað það fyrir áhorfendur í sal,“ segir söngkonan.