Söngkonan Karitas Harpa Davíðsdóttir bar sigur úr býtum í hæfileikakeppninni The Voice árið 2017. Margt hefur gerst í lífi Karitasar síðan þá og hefur hún til að mynda fikrað sig áfram í tónlistinni í leit sinni að því hvernig tónlistarkona hún vill vera. Nú er hún með EP plötu í vinnslu sem kemur út von bráðar þar sem hún gerir upp alls kyns tilfinningar sem hafa brotist um í henni frá barnæsku. Vinnuheiti hennar er On the Verge.

Feimin við að semja sjálf

Karitas sigraði í The Voice fyrir þremur árum.

„Ég gaf út lög fyrir tveimur árum sem voru gerð í samstarfi við upptökuteymið Stop Wait Go. Ég er ánægð með þessi lög og finnst þau flott en ég var ekki með puttann í þeim eins mikið og ég hefði viljað. Ég fann fljótt að þau voru ekki endilega alveg ég,“ segir Karitas og bætir við að hún hafi eytt miklum tíma í það síðan hún sigraði í The Voice að finna út hvernig tónlistarkona hún vildi vera.

„Á þessum tíma, þegar ég vann lögin með Stop Wait Go, var ég byrjuð að vinna í einhverjum af lögunum sem ég er að gefa út núna. Ég var þá mjög feimin við að vera að semja sjálf. Mér fannst ég bara vera söngkona – ekki tónlistarkona, þó það sé alveg fullt að vera söngkona. Ég fann þegar ég gaf út lögin fyrir tveimur árum að mig langaði að hafa meira með lögin að gera. Mig langaði að semja og hafa puttana í hvernig lögin hljómuðu.“

Tvö börn og plata

Það má segja að fæðing EP plötu Karitasar hafi verið löng, en það var annars konar fæðing sem varð til þess að útgáfan frestaðist.

„Ég stefndi á að gefa út þessi lög og plötu fyrir ári síðan en þá var ég ólétt,“ segir hún og brosir. „Ég eignaðist strákinn minn, Hrafn, í maí í fyrra og fór þá á fullt aftur í stúdíó að reyna að klára þessi lög. Þetta er búið að taka miklu lengri tíma en ég ætlaði mér nokkurn tímann. Ég var ekki alveg nógu innblásin á síðustu meðgöngu og fannst erfitt að koma mér í þetta. Ég fann um leið og hann var fæddur að ég þyrfti að halda áfram með þetta. En þessi vetur og þetta ár hefur einkennst af veirum, verkföllum og fleiri veirum, eins og fólk veit. Allt hefur tekið miklu lengri tíma. En nú ætla ég að klára þetta svo ég get haldið áfram því mér finnst erfitt að hafa þetta fyrir mér,“ bætir hún við, en gaman er að segja frá því að nú er Karitas aftur ólétt. Er það þriðja barn Karitasar og er von á því í janúar á næsta ári. „Mig langar að klára plötuna bæði til að þurfa ekki að bíða af mér aðra meðgöngu heldur líka til að klára þessum kafla og halda áfram.“

Tilfinningaleg úrvinnsla

Sex lög verða á EP plötu Karitasar, en tvö lög eru nú þegar komin út, þar á meðal lagið hér fyrir ofan. Platan er ákveðið uppgjör fyrir tónlistarkonuna.

„Fjögur af þessum sex lögum hafa verið tilfinningaleg úrvinnsla fyrir mig, sem ýmist sprettur frá tilfinningum eða aðstæðum sem hafa setið í mér. Tvö nýrri lögin eru bara samin út af því að mig langaði það. Ég hef allt mitt líf verið að díla við einhvers konar depurð og kvíða. Svo loksins kom það í ljós núna á síðustu meðgöngu að ég er með ADHD og fékk loksins greiningu á því. Þunglyndi og kvíði eru oft afleiðingar ómeðhöndlaðs ADHD og gekk aldrei almennilega að laga það því það var aldrei búið að laga grunninn. Þetta opnaði augu mín fyrir þeim tilfinningum sem ég var að skrifa og semja um. Þessi lög eru því smá uppgjör á minni innri baráttu; depurð, óöryggi og alls konar lífsupplifunum. Nú er ég tilbúin að loka þessum kafla og halda áfram með það sem koma skal,“ segir Karitas. „Ég er að nýta þennan tíma til að vinna úr þessum hlutum því það er víst ekkert svakalega gáfulegt að flýja þá endalaust. Þegar ég var yngri flúði ég þessar tilfinningar. Ég var alltaf á ferð og flugi og horfðist ekki beint í augu við sjálfa mig. Síðan eignaðist ég börn og fór að fylgjast með þeirra upplifunum og sjá hvernig þau endurspeglast í manni og maður í þeim. Þá hugsaði ég að ég yrði að taka mig saman í andlitinu.“

Hér má sjá Karitas með fjölskyldunni. Lengst til vinstri er Ómar Elí, sem var að byrja í 1. bekk. Við hlið hans er litli bróðir Hrafn, sem varð eins árs í maí, í fangi föður síns, Arons Leví Beck. Karitas heldur síðan á sónarmynd af nýjasta fjölskyldumeðliminum sem er væntanlegur í janúar.

Erfitt að opna sig

Karitas opnar sig ekki aðeins í gegnum tónlistina því hún hefur verið óhrædd við að opna sig um óöryggi sitt og kvíða á samfélagsmiðlum.

„Mér finnst það ekkert þægilegt í heimi. Mér finnst alveg erfitt að tala um þetta, ekki út af því að ég skammist mín endilega fyrir það heldur vegna þess að þetta hefur ekki verið nógu samfélagslega samþhykkt í gegnum tíðina. Með því að ég opni mig um það sem hefur plagað mig að einhverju leyti þá líður mögulega einhverjum sem sér það eða les að hann sé ekki einn.“

Einbeitt í hljóðveri.

Fordómar gegn ADHD

Á svipuðum tíma og Karitas byrjaði að velta fyrir sér hvort hún væri mögulega með ADHD var hún beðin um að stjórna hlaðvarpsþættinum Lífið með ADHD á RÚV.

„Með því að fara og taka viðtöl við fólk, oft sem hefur verið greint þegar það hefur orðið eldra, og lesa mér til um ADHD ýtti mér loksins í að fá svör. Ég fann mig meira og meira í sögum þessa fólks og samsvaraði mig mikið með þeim,“ segir Karitas.

„Ég hlakka mikið til að halda áfram að vinna þessa þætti. Það er svo margt sem er hægt að ræða í kringum þetta. Það fylgja ADHD oft miklir fordómar, þó það hafi skánað með árunum. En þetta er klárlega málefni sem þarf að auka fræðslu um.“

„Ég held að við þurfum að hugsa allt upp á nýtt“

Áður en ég kveð Karitas verð ég að spyrja um heimsfaraldur COVID-19 og stöðu hennar sem tónlistarkonu.

„Ég er svo heppin að hafa þessa meðgöngu að hugsa um hvað varðar mig persónulega. Ég veit hvað er að taka við hjá mér í einkalífinu,“ segir hún og brosir innilega. „Ég var búin að missa vinnuna í fjölmiðlum áður en COVID-19 skall á og var ekki komin í fulla vinnu aftur. Vinna í tónlist og fjölmiðlun hefur verið mitt lifibrauð síðustu þrjú árin. Ég átti nokkuð bókuð gigg í haust sem duttu niður sem hafði fjárhagsleg áhrif. Þannig að ég veit ekki hvort ég fer aftur á almennan vinnumarkað. Ég var búin að ná einhverju sem var svo mikill draumur og erfitt að kyngja því að það sé kannski búið í bili. Ég held áfram að syngja og semja, en kannski ekki alveg á sama kaliberi. Þegar ég horfi fram á við er ég ekki viss um að hlutirnir verði aftur alveg eins og þeir voru. Ég held að við þurfum að hugsa allt upp á nýtt. Við vitum ekki hvað þessi veira verður hangandi yfir okkur lengi. Ég held að enginn viti hvað framundan er.“