Bandaríski grínistinn Joe Luna, sem skemmti undir nafninu Joe El Cholo, lést þann 23. nóvember síðastliðinn úr COVID-19 aðeins 35 ára að aldri. Daginn áður en hann lést setti spéfuglinn myndband á samfélagsmiðla þar sem hann lýsti reynslu sinni af sjúkdómnum sem hefur dregið svo marga til dauða á þessu ári sem senn líður undir lok.

Luna skrifaði færslu á Instagram daginn áður en hann lést þar sem hann sagði að COVID-19 væri sko „ekkert grín, sérstaklega ef maður er með sykursýki.“

Sama dag birti hann myndband þar sem hann sagðist kljást við hræðileg einkenni, svo sem verk fyrir brjósti, magaverk, skálfta og tap á bragðskyni. Hann bætti við að börn hans og kærasta hefðu einnig smitast af kórónaveiruna en að einkenni þeirra væru vægari.

„Ég skal segja ykkur að þegar ég heyrði fólk tala um hvernig COVID lék það þá hugsaði ég alltaf: Ég efast um að þetta sé svona slæmt,“ sagði hann í myndbandinu sem sjá má hér fyrir neðan.

„Ég skal segja ykkur það akkúrat núna að ég er í miðri orrustu. Ég er að berjast fyrir líf mínu.“

Luna sagðist enn fremur hafa fengið lungnabólgu ofan í COVID-19.

„Ég hef tvisvar misst útlim og er með sykursýki þannig að ég er að fást við margt.“

Luna birti myndband á Instagram á dánardegi sínum þann 23. nóvember þar sem hann var kominn á sjúkrahús.

„Þetta er hræðilegt,“ sagði hann. „Lungnabólgan mín er mjög slæm. Allt er á hraðri niðurleið.“

Stuttu síðar var hann látinn. Búið er að blása til hópfjármögnunar á GoFundMe til að safna fyrir útfararkostnaði.