Leikarinn Wentworth Miller rauf þögnina á Instagram á sunnudag um mögulega endurkomu sem karakterinn Michael Scofield í þáttaröðinni Prison Break, en háværar sögusagnir um endurkomu þáttanna hafa verið á kreiki um nokkurt skeið.

Miller segist ekki ætla að leika Scofield aftur á ævinni þar sem hann vilji ekki leika gagnkynhneigða menn lengur. Miller kom út úr skápnum sem samkynhneigður maður árið 2013.

„Ég er hættur í PB [Prison Break]. Staðfest. Ekki út af hávaða á samfélagsmiðlum (þó að það hafi varpað ljósi á málið). Ég vil bara ekki leika gagnkynhneigða karaktera. Það er búið að segja sögur þeirra sí og æ,“ skrifar Miller í færslu þar sem hann segir frá því að honum hafi borist hatursfullar athugasemdir og skilaboð um kynhneigð sína.

„Ekki meiri Michael. Ég skil að þetta eru mikil vonbrigði ef þú ert aðdáandi þáttanna og varst að vonast eftir fleiri þáttaröðum. Ég biðst afsökunar á því.“

Fyrrverandi samleikarar Miller í Prison Break voru fljótir að sýna honum stuðning.

„Þetta var gaman vinur,“ skrifar Dominic Purcell, sem lék bróður Millers í þáttunum.

„Ég veiti þér fullan stuðning og skil afstöðu þína. Ég er ánægður að þú hefur tekið þessa ákvörðun fyrir heilsuna og sannleika þinn. Haltu áfram að birta færslur… elska þig bróðir.“

Sarah Wayne Callies lék lækninn Söru Tancredi, sem var ástfangin af karakter Millers í þáttunum. Hún segist skilja og styðja ákvörðun Millers.

„Ég vil að aðdáendur viti þetta: Leikarar í Prison Break virða hinsegin fólk. Við stöndum með – og meðal – vinum okkar og fjölskyldu í LGBTQ+ samfélaginu með fullum stuðningi við réttindi þeirra og listrænt starf. Stanslaust. Alltaf,“ skrifar hún.

Prison Break fór fyrst í loftið árið 2005 og sló fyrsta serían í gegn. Í kjölfarið gengu þrjár aðrar seríur til ársins 2009. Síðan var gerð sjónvarpsmyndin The Final Break og fimmta sería fór í loftið árið 2017. Michael Thorn, forstjóri Fox, staðfesti árið 2018 að ný sería af Prison Break væri í þróun. Fyrrnefndur Purcell staðfesti það svo í september á þessu ári að sería sex væri væntanleg.