Hér kemur ein ómóstæðileg uppskrift úr bókinni minni, Minn sykursæti lífsstíll.

Ég var alveg klár á því að mig langaði að hafa sérstakan nammikafla í bókinni minni, þar sem ég endurgeri til dæmis heimsfrægt nammi.

Ástæðan fyrir því að mig langaði að hafa nammikafla í bókinni minni er einfaldlega sú að ég elska að búa til nammi. Og oftar en ekki er það miklu betra en það sem maður kaupir. Kannski út af því að maður setur svo mikla ást og umhyggju í nammigerðina. Hvað er betra en ástríðufullt Twix, ég bara spyr?

Það er auðveldara en maður heldur að búa til Twix heima og ég sver að það er erfitt að standast þessar dúnmjúku stangir!

Twixum þetta í gang!

Heimagert Twix

Mynd: Sunna Gautadóttir.

Botn:

230 g mjúkt smjör
1 bolli flórsykur
2 bollar hveiti
1 tsk vanilludropar

Karamella:

230 g smjör
1 bolli púðursykur
1 bolli síróp
1 dós sæt dósamjólk (sweetened condensed milk)
smá sjávarsalt

Súkkulaði:

2 bollar mjólkursúkkulaði
1 msk smjör

Aðferð:

Fyrst er það botninn. Hitið ofninn í 150°C. Spreyið ílangt form, sirka 33 sentímetra langt og 23 sentímetra breitt, með bökunarspreyi. Ekki er verra að klæða það líka með smjörpappír og leyfa honum að ná upp hliðarnar. Blandið smjöri, sykri, hveiti og vanilludropum vel saman og þrýstið blöndunni í botninn á forminu. Bakið í 28-33 í mínútur og leyfið að kólna alveg.

Svo karamella. Setjið öll hráefnin í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið stanslaust og náið upp suðu í blöndunni. Leyfið henni að malla í 6-9 mínútur. Takið pottinn af hellunni og hellið karamellunni yfir botninn. Kælið í ísskáp í 1-2 klukkustundir. Skerið síðan herlegheitin í ræmur.

Loks súkkulaðið. Setjið hráefnin í skál sem þolir örbylgjuofn og bræðið saman í 30 sekúndur í senn þar til allt er bráðnað. Munið að hræra alltaf á milli holla. Súkkulaðihúðið Twix-ræmurnar og raðið þeim á smjörpappír. Þetta er aðeins of gott til að vera satt!