Það er eitt sem ég fæ ofboðslega oft löngun í og það eru vöfflur. Bara hefðbundnar, gamaldags vöfflur. Og helst með engu. Jebb, ég veit að ég er skrýtin en mér finnst vöfflur bestar með engu – enginn rjómi, engin sulta, ekki neitt. Ég er mjög ódýr í rekstri.

Ég skelli frekar oft í vöfflur og gerði það til að mynda síðustu helgi. Þá fattaði ég að ég hef aldrei sett hefðbundna vöffluuppskrift hingað inn og er það algjört hneyksli. Því ætla ég að bæta úr því akkúrat núna!

Hún móðir mín kenndi mér að búa til vöfflur eftir minni, ekki uppskrift. Þannig að ég nota aldrei uppskrift þegar ég bý til vöfflur heldur sulla bara einhverju saman. Þannig að um helgina vandaði ég mig þvílíkt og fylgdist með því sem ég setti í blönduna svo ég gæti með góðu móti gefið ykkur uppskrift.

Ég er aðeins búin að breyta uppskriftinni sem móðir mín kenndi mér og lauma til dæmis 1-2 matskeiðum af hlynsírópi saman við til að sykra vöfflurnar aðeins. En það er náttúrulega mesti óþarfi og bara gert til að fóðra nautnasegginn í mér.

Varðandi vöfflujárnið sjálft, þá keypti ég mér ódýrasta vöfflujárnið sem ég fann í Elko fyrir nokkrum árum. Ég keypti það út af því að það minnti mig svo á járnið sem mamma er búin að eiga í mörg ár. Og þó það hafi verið hræódýrt þá svínvirkar það. Það er hægt að stilla það frá 1 og upp í 5 og ég er yfirleitt með það á 4 1/2-5 þegar ég baka vöfflur.

Njótið nú lömbin mín, hvort sem þið smyrjið vöfflurnar með smjöri og osti eins og eiginmaður minn yndislegi og besti, eða drekkið þeim í rjóma og sultu eins og elskulegir foreldrar mínir. Það má allt þegar kemur að vöfflum! Er það ekki annars?

Kíkið líka á heilhveitivöfflurnar mínar með karamellueplunum ef þið viljið prófa eitthvað nýtt.

Heimsins bestu vöfflur

Hráefni:

2 1/4 bollar hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
smá sjávarsalt
2 egg
80 g brætt smjör
1/2 bolli grísk jógúrt
1 1/4 bolli mjólk
1-2 msk hlynsíróp

Leiðbeiningar:

Byrjið á því að stinga vöfflujárninu í samband og hita það. Bræðið smjörið í örbylgjuofni og leyfið því að kólna lítið eitt. Blandið öllum hráefnum vel saman í skál og þeytið þar til blandan er kekkjalaus. Skellilð slatta á vöfflujárnið, eða um það bil 2 kúfuðum matskeiðum, og bakið í vöfflurnar. Ég taldi ekki vöfflurnar sem ég bakaði um helgina en ég held að ég hafi fengið sirka 15 stykki úr þessari uppskrift.