Auðvitað er ég búin að leika mér aðeins með ketó mataræðið, þó ég borði ekki eftir því að staðaldri.

Þessa pítsu hef ég oft gert og ég gjörsamlega dýrka hana – mæli 100 prósent með þessari uppskrift!

Ketó-pítsa

Botn – hráefni:

2 egg, þeytt
150 g rifinn ostur (hér er mjög gott og bragðmeira að nota rifinn cheddar-ost)
pítsasósa
álegg að eigin vali
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksgeiri
handfylli af rifnum osti

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír á ofnplötu. Hrærið eggjum og 150 g af osti vel saman og dreifið úr blöndunni á smjörpappír. Bakið í 10 til 15 mínútur, eða þar til botninn hefur tekið góðan lit. Botninn er látinn kólna aðeins, bara í um það bil fimm mínútur, og síðan er pítsusósu dreift yfir hann. Sumir vilja kaupa tilbúna pítsasósu en það er einnig þjóðráð að búa til sósuna úr tómatpúrru, vatni, parmesanosti, hvítlauk, salti og pipar. Jafnvel bæta smá chili flögum í sósuna ef hún á að vera sterk. Síðan er áleggi að eigin vali raðað ofan á pítsasóuna og loks handfylli af osti drissað yfir. Ólífuolíunni og hvítlauk er blandað saman og kantarnir penslaðir með hvítlauksolíunni. Olíunni er síðan drissað létt yfir pítsuna. Pítsan er því næst sett inn í ofn og bökuð í 5 til 8 mínútur, eða þar til ostur er bráðnaður.