Hver hefur ekki lent í því að vera aðeins of spenntur yfir því að fara að baka en gleymt að taka smjör út úr ísskápnum þegar uppskriftin kveður á um mjúkt smjör?

Ekki örvænta! Ég nefnilega sá einu sinni snilldarráð hjá ofurfyrirsætunni Chrissy Teigen um einfalda leið til að mýkja smjör. Þó ég hafi oft gripið á það ráð að mýkja smjör í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur þá endar það yfirleitt þannig að smjörið bráðnar að einhverjum hluta og við viljum það alls ekki.

Hér kemur því ráðið hennar Chrissy sem svínvirkar og er ofureinfalt:

1. Setjið vatn í glæra skál. Setjið skálina inn í örbylgjuofn og hitið vatnið í um það bil tvær mínútur.

2. Takið skálina úr örbylgjuofninum en passið ykkur því hún er heit!

3. Hellið vatninu úr skálinni.

4. Hvolfið skálinni yfir smjörið sem þið viljið mýkja. Gufan sér um að mýkja það.

5. Takið skálina af smjörinu þegar það er orðið nógu mjúkt. Þetta tekur bara 1-2 mínútur.

Takk Chrissy!