Ofuraðdáendur Friends eru orðnir alvanir því að taka eftir mistökum og ósamræmi í þáttunum. Þeir láta það ekkert á sig fá oftast nær og ná að horfa framhjá öllu því til að njóta gamanþáttanna.

Á vefsíðunni Best Life er vakin athygli á mistökum sem aðdáendur hafa örugglega ekki tekið eftir. Þegar manni hefur hins vegar verið bent á þessi mistök er erfitt að horfa framhjá þeim.

Þetta er ekki Monica

Í þættinum The One With Rachel’s Date í áttundu þáttaröð er Phoebe að spjalla við Monicu á kaffihúsinu Central Perk. Leikkonan Lisa Kudrow er hins vegar ekki að tala við Courteney Cox sem leikur Monicu heldur allt aðra konu, eins og sést á mínútu 6.23.

Og þetta er ekki Rachel

Sama er uppi á teningnum í þættinum The One With the Mugging í níundu þáttaröð. Á um mínútu 3.13 er Joey spenntur og segir Rachel og Monicu frá áheyrnarprufu sem hann er að fara í. Þá er Jennifer Aniston ekki lengur í hlutverki Rachel heldur önnur konu. Þessi mistök eru ekki alveg jafn greinileg og þegar Monicu er skipt út í sófanum.

Það er hins vegar alvanalegt að aukaleikarar séu staðgenglar aðalleikara í hinum og þessum senum. Galdurinn er hins vegar að aðdáendur eiga ekki að taka eftir þessum aukaleikurum. Þar brást framleiðendum Friends bogalistin.