Sextán ár eru liðin síðan síðasti Friends-þátturinn fór í loftið. Leikararnir Courteney Cox, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Matt LeBlanc, Matthew Perry og Lisa Kudrow slógu í gegn í þáttunum sem hófu göngu sína árið 1994 en alls voru teknir upp og sýndir 236 þættir af Friends.

Friends-þættirnir lifa enn góðu lífi og nú er Friends-endurkoma í bígerð sem átti að fara í sýningar í maí síðastliðnum. Það frestaðist hins vegar vegna kórónuveirunnar og óvíst er hvenær endurkomuþátturinn fer í loftið.

Til að hita upp fyrir þessa endurkomu aldarinnar ákváðum við á Fréttanetinu að fara yfir uppáhaldsþætti aðalstjarnanna í Friends, en af nógu er að taka af þessum 236 þáttum.

Jennifer Aniston (Rachel)

Aniston ljóstraði því upp í viðtali við James Burrows árið 2016 að hún elskaði endurlitsþættina, sérstaklega „The One With the Prom Video“ í seríu 2. Margir þekkja þann þátt sem humarþáttinn þar sem Rachel og Ross ná loksins saman því „hann er humarinn hennar,“ eins og Phoebe segir réttilega.

„Ég elskaði endurlitin þar sem Monica var feit, við sáum Rachel áður en hún fór í nefaðgerð og Ross var með afró hár.“

Courteney Cox (Monica)

Cox elskar þáttinn „The One With the Blackout“ í fyrstu seríu af þeirri einföldu ástæðu að hún elskar drepfyndnu senuna þar sem Ross reynir að segja Rachel að hann elski hana.

„Ég elskaði að sjá köttinn á bakinu á Ross.“

Lisa Kudrow (Phoebe)

Kudrow sagði frá því á Reddit árið 2014 að hún elskaði einn þátt meira en annan úr seríu 8.

„Hrekkjavökupartíið, þátturinn sem Sean Penn leikur í,“ sagði Kudrow, en þátturinn er sá sjötti úr röðinni úr seríu átta. „Það eru margar ástæður fyrir því að ég elska þann þátt. Aðalástæðan er sú að þetta var fyrsti þátturinn sem við tókum upp eftir 11. september [2001 – hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum]. Vikuna eftir stoppaði fólk mig í Los Angeles og gaf mér dapurt augnaráð og þakkaði mér fyrir að láta það hlæja.“

David Schwimmer (Ross)

Þáttur 10 í seríu 7, „The One With the Holiday Armadillo“, er í uppáhaldi hjá Schwimmer. Í þeim þætti útskýrir hann gyðingdóm og ljósahátíðina Hanukkah fyrir syni sínum í þáttunum, Ben en Schwimmer er gyðingur.

„Sá þáttur var mjög skemmtilegur,“ sagði hann eitt sinn við Glamour um þáttinn, þar sem hann klæðir sig upp sem beltisdýr en ekki jólasveinninn. „Ég vona að ég geti einn daginn sýnt dóttur minni þann þátt.“

Matthew Perry (Chandler)

Perry gat ekki haldið aftur af hlátrinum í þættinum Good Morning America árið 2017 þegar hann sagði frá sínum uppáhalds þætti, „The One with Ross’ New Girlfriend”, sem er fyrsti þátturinn í seríu tvö. Uppáhaldssena Perry er þegar Joey segir Chandler að leita til klæðskera síns og man ekki nákvæmlega hvenær hann fór fyrst til hans. Þá segir Chandler þessa gullnu setningu:

„Ókei, þú verður að stoppa eyrnapinnann þegar þú finnur fyrir mótstöðu!“ (e. „OK, you have to stop the Q-tip when there’s resistance!“)

Matt LeBlanc (Joey)

LeBlanc er svag fyrir lokaþættinum sem var í tveimur pörtum og hét einfaldlega „The Last One.“

„Þetta var erfið vika,“ sagði hann í viðtali við Glamour. „Það var erfitt að vita að endalokin væru nærri. Besta starf í heimi. Það tók virkilega á.“