Rachel Marston, 27 ára kona frá Mossley í Manchester á Englandi, lyfti sannkölluðu grettistaki þegar hún tók eldhúsið sitt í gegn á dögunum.

Marston flutti inn í hús í Mossley í ágúst árið 2019, en hún býr nú í húsinu ásamt foreldrum sínum og börnunum sínum tveimur, sem eru tveggja ára og sjö mánaða. Marston ákvað að reyna að sætta sig við „ljóta“ eldhúsið í húsinu því þegar að fjölskyldan flutti inn þurfti hún að taka á sig kostnaðarsama endurnýjun á þakinu. Hún þráði hins vegar ekkert meira en nýtt eldhús og skoðaði hvað það myndi kosta. Hún komst að því að hún myndi þurfa að eyða rúmum tveimur og hálfum milljónum króna til að fá eldhúsið sem hún vildi.

„Það var ekki innan okkar verðramma,“ segir Marston í samtali við vefsíðuna latestdeals.co.uk.

„Við héldum að við yrðum ánægð með eldhúsið í nokkur ár þar til við hefðum efni á nýju en okkur skjátlaðist. Því meira sem ég eldaði í eldhúsinu, því meira hataði ég eldhúsið.“

Hér sjást rauðu flísarnar.

Það voru rauðu flísarnar sem gerðu útslagið hjá Marston.

„Ég var komin með ógeð á rauðu flísunum. Þær stungu í augun.“

Vildi bjartara eldhús

Marston vildi létta á eldhúsinu og gera stílinn heimilislegri.

„Eldhúsið var svo flatt og dökkt. Mig langaði að gera það bjartara,“ segir hún.

Öll tæki, tól og innréttingar í eldhúsinu voru í góðu lagi og því lá beinast við hjá Marston að umbreyta eldhúsinu með málningu. Marston eyddi samtals 150 pundum, um 26 þúsund krónum, í málningu, málningarbursta, svart sprey, fúgupenna, stensil fyrir flísarnar og fleira smáræða. Fyrst tók hún í gegn skápahurðarnar. Hún þvoði hurðarnar, pússaði þær og þvoði þær aftur áður en hún málaði þær. Hún notaði kalkmálningu og þurfti því að mála þær smátt og smátt þar sem besta útkoman með kalkmálningu er að mála nokkur þunn lög á yfirborðið.

Verkefnið tók alls 5 mánuði.

Varðandi gólf- og veggflísar þá þvoði hún þær einnig og pússaði áður en hún málaði þær ljósar. Síðan notaði hún svartan fúgupenna.

Hér má sjá hvítu flísarnar með svartri fúgu í vinnslu.

Hæstánægð með útkomuna

„Gólfflísarnar voru umfangsmesta verkefnið. Ég þurfti að mála þær hvítar áður en ég notaði stenslana,“ segir Marston. „Það getur verið erfitt að vinna með stensla þannig að ég gerði nokkrar tilraunir á flísunum undir stiganum þar sem enginn gat séð mistökin mín.“

Gólfflísarnar tóku sinn tíma.
Sniðugt að stensla.

Hún segir galdurinn við að nota stensla á flísar sé að nota lítið af málningu í einu og dubba henni á flísarnar með stensilbursta. Þannig blæðir málninginn ekki og rennur ekki undir stensilinn. Þá spreyjaði Marston höldur í möttum, svörtum lit.

Marston eyddi má pening í aukahluti í eldhúsið en gerði kransinn á veggnum sjálf. Hún er hæstánægð með lokaútkomuna.

„Þetta var fyrsta „DIY“ verkefnið sem ég geri og það tókst betur en ég bjóst við, sérstaklega þar sem ég þurfti ekki að eyða þúsundum punda í eldhúsið sem ég vildi,“ segir hún. „Ég var mjög sveigjanleg með tíma. Börnin mín eru lítil þannig að ég gat ekki dvalið löngum stundum við verkið. Ég gerði þetta í skorpum þegar ég hafði tíma og þess vegna tók þetta verkefni um fimm mánuði. Gólfið tók lengstan tíma – sjö daga í heildina – og ég vann oft fram á nótt til að klára.“

Allt annað eldhús.