Það er mjög mikilvægt að geyma allan mat við rétt skilyrði svo maturinn skemmist síður. Rétt geymsla tryggir einnig minni matarsóun. Svo er náttúrulega alltaf gott að hafa í huga að kaupa hæfilegt magn inn svo lítið endi í ruslinu.

Á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna er að finna marg frábær ráð þegar kemur að matvælum og hreinlæti. Eitt af því sem má finna á vefnum eru ráð um hvaða ávexti og grænmeti má geyma í ísskáp.

„Það er margt sem þarf að hafa í huga við geymsluna, en eitt af því er að gæta þess að geyma ekki ávexti og grænmeti saman sem gefa frá sér etýlene sem er gastegund sem ávextir og grænmeti framleiða í mismiklu magni. Etýlene flýtir fyrir rotnun og því ekki gott að geyma ávexti og grænmeti sem gefa mikið af því frá sér með öðru grænmeti og ávöxtum sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir etýlene,“ stendur á vefsíðunni og bætt við:

„Athugið að ávextir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hnjaski og eitt lítið mar á t.d. eplum og perum er fljótt að breiðast út. Því er gott að muna að handfjatla ávextina okkar varlega og troða ekki of miklu t.d. í skúffurnar í ísskápnum.“

Síðan fylgja góðir listar yfir þá ávexti sem ætti ekki að geyma í ísskáp og fylgja þeir hér fyrir neðan.

Þessir ávextir gefa frá sér etýlene og ætti ekki að geyma í ísskáp:

Avokadó – setja samt í ísskáp þegar fullþroskað
Bananar – geymast samt vel í ísskáp þegar þeir eru fullþroskaðir.
Nektarínur (setja í ísskáp þegar fullþroskaðar)
Ferskjur (setja í ísskáp þegar fullþroskaðar)
Perur (setja í ísskáp þegar orðið alveg þroskað)
Plómur (geyma í ísskáp þegar fullþroskaðar)
Mangó (geyma við stofuhita)

Geyma við stofuhita:

Appelsínur
Ananas

Ekki geyma í ísskáp:

Vatnsmelónur